146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Byrjum aðeins jákvætt. Jú, það er hægt að ná öllum þessum jákvæðu atriðum án þess að brjóta formið. Af hverju veljum við að gera þetta með röngum hætti þegar við höfum valmöguleika um að gera þetta rétt? Ef það er talað um að læra af ferlinu þá er tækifærið til þess núna. Lærum bara af ferlinu núna og gerum þetta rétt núna, en gerum þetta ekki vitlaust, nákvæmlega eins og við gerðum síðast.

Hægt hefði verið að minnka fjölda óvæntra frávika með því að vinna undirbúningsvinnuna betur. Hv. þingmaður segir réttilega að þetta séu mun fleiri óvænt frávik en tíðkast.

Mér finnst það áhugavert og vil spyrja hv. þingmann um heimild í fjárlögum til að borga þessa upphæð úr ríkissjóði. Það er ekki heimild til að greiða fyrir fram úr ríkissjóði. Það er ekki hægt að samþykkja heimild í fjáraukalögum í haust til að greiða þessa milljarða og byrja að borga þá núna. Mér þætti því áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvernig við leysum það vandamál.

Hv. þingmaður nefndi að greiðslufall væri hugsanlega ekki neitt. Það er rangt. Það er gjalddagi 2021. Sviðsmyndagreining Ríkisábyrgðasjóðs sýnir að ef ríkið heldur framkvæmdinni í um 40 ár borgi hún sig en þá á eftir að reikna inn markaðsvaxtamismuninn á ríkisábyrgðarláninu og markaðsvaxtaláninu sem ekki hefur verið greitt hingað til. Það eina sem við sjáum núna er að það er gjalddagi 2021. Þá er óhjákvæmileg yfirtaka. Hvernig yfirtaka það verður, með annaðhvort sölu eða algerri opinberri yfirtöku ganganna, er ekki hægt að segja til um. En það er mjög líklegt að þá þurfi að afskrifa einhvern hluta lánsins, eins og fram kemur í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs og við erum engu betur sett þá en nú. Við getum alveg eins (Forseti hringir.) gert þetta núna í staðinn fyrir að henda þessu yfir á næsta kjörtímabil.