146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin fékk töluverðan fjölda á sinn fund, eins og kemur fram í nefndarálitinu, og ætla ég ekki að lengja umræðuna með því að telja það upp. Að ósk fjármála- og efnahagsráðuneytisins leggur meiri hlutinn til að 3. gr. frumvarpsins, er varðar heimildir félaga til samsköttunar, falli niður. Ráðuneytið taldi tilefni til að endurskoða ákvæðið og hyggst leggja fram nýja tillögu fyrir Alþingi í haust. Ákvæðið á ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar næstkomandi svo það ekki ætti að koma að sök að lögfestingu þess seinki til haustsins.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott undanþága frá takmörkun 1. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt á frádrætti vaxtagjalda ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í greinargerð með frumvarpinu segir að líkur séu á að hún gangi gegn EES-rétti. Samtök atvinnulífsins töldu hins vegar brottfall undanþágunnar geta aftrað fyrirtækjasamstæðum frá sameiginlegri lántöku sem gæti hækkað fjármögnunarkostnað. Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt en beinir því jafnframt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að samhliða endurskoðun ákvæðis 3. gr. frumvarpsins verði tekið til skoðunar hvernig megi tryggja að brottfall undanþágunnar komi ekki niður á eðlilegri fjármögnun innan samsteypu sem beinist ekki að því að takmarka skattgreiðslur. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins á ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar næstkomandi svo ekki ætti að koma að sök að ákvæði um það efni verði lögfest í haust.

Með hliðsjón af ábendingu í umsögn KPMG ehf. leggur meiri hlutinn til að í a-lið 5. gr. og 7. gr. frumvarpsins verði vísað til útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög fremur en útleigu til varanlegrar búsetu leigjanda í íbúðarhúsnæði. Meiri hlutinn telur þá afmörkun mun skýrari.

Síðan eru gerðar tillögur um nokkrar orðalagsbreytingar en allar breytingartillögur nefndarinnar koma fram á þingskjali 859.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum. Undir þetta nefndarálit rita, auk þess sem hér stendur: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson og Vilhjálmur Bjarnason.