148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[11:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég held við fögnum því öll að fyrir liggi frumvarp til laga til að takast á við efni sem hefur verið dálítið í undirheimum, skulum við segja, hagkerfis okkar og til vandræða fyrir marga. Það er fagnaðarefni að velferðarnefnd hefur náð samstöðu um málið eftir nokkra umræðu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málið kemur fyrir Alþingi og ánægjulegt ef við náum að samþykkja þetta frumvarp.

Þeir hagsmunaaðilar sem fengu tækifæri til að senda inn umsagnir ljúka allir upp einum rómi um að frumvarpið sé til bóta þótt við í nefndinni höfum rætt nokkuð um hugsanlegan vanda sem því fylgir að meta hvenær við erum á hálum ís og hvenær ekki. Það er sama hvort um er að ræða héraðssaksóknara eða Íþrótta- og Ólympíusambandið, menn eru á einu máli.

Við fjölluðum dálítið um neysluskammtana og stærð þeirra, sem var hinn stóri ásteytingarsteinn lengi vel. En við vitum að svokallaðir neysluskammtar stera sem fengnir eru á ólöglegan hátt geta verið hundrað- eða jafnvel þúsundfaldir þeir skammtar sem gefnir eru samkvæmt læknisráði. Notkun á slíkum efnum hefur alvarlegar afleiðingar, á það bendir Íþrótta- og Ólympíusambandið. Það getur fylgt því vitsmunaskerðing, miklar skapsveiflur, svefntruflanir, minni samkennd, aukin árásargirni, depurð, kvíði og hugræn skerðing, þunglyndi og sjálfsvígshugleiðingar. Umboðsmaður barna leggur mikla áherslu á að við aukum fræðslu í því efni. Lögreglan bendir á að teikn séu um það að þeir sem lenda í erfiðum málum og beita ofbeldi séu hugsanlega aðilar sem hafi ánetjast slíku efni í óhófi.

Tollstjóri bendir á að mikilvægt sé að ramma þetta inn með reglugerðum, til séu fyrirmæli sem lögreglan hafi þar sem tiltekið er hvernig sekta eigi fyrir minni háttar brot en slík fyrirmæli séu ekki til í lögum né reglum til handa tollstjóra hvað varði lyfjalagabrot og skerpa verði á því. Þá segir tollstjóri segir enn fremur að í lögin vanti skýra heimild til þess að tollstjóri, Lyfjastofnun, landlæknisembættið, lögreglan, MAST og ráðuneytin sem í hlut eiga geti miðlað upplýsingum sín á milli sem varpað geta ljósi á meinta misnotkun ýmissa aðila og lækna, ef því er að skipta, á því regluverki sem nú gildir. Það eru í þessu miklir peningar, að því er talið er, og afleiðingarnar geta verið skelfilegar, enda er talið að a.m.k. einn aðili láti lífið í hverri viku vegna ofneyslu á slíkum lyfjum.