149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa umræðu. Ég var lögreglumaður um tvítugt í nokkur ár og það að mæta í ræðustól Alþingis er mun auðveldara en nokkurn tímann að mæta í dagvinnu sem lögreglumaður. Í dagvinnu sem lögreglumaður hefur maður ekki hugmynd um hvað bíður manns. Þetta var hættulegt starf og illa borgað miðað við þá áhættu sem menn voru í.

Hér áður fyrr var alltaf verið að tala um að lögreglan væri illa mönnuð og hún er illa mönnuð í dag. Það þarf að bæta við. Við erum með mun meiri vandamál núna en þegar ég var á sínum tíma í lögreglunni. Við erum með ölvunarakstur, eiturlyfjaakstur og ölvunar- og eiturlyfjaakstur. Þegar maður keyrir núna á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur eða í Hafnarfirði er eitt sem maður tekur alltaf eftir, lögreglubíll sést ekki orðið. Það er undantekning að maður sjái lögreglubíl, það er undantekning að maður sjái hraðamælingar. Maður sér aftur á móti gífurlegan hraðakstur þegar það er hægt, þegar götur eru ekki stíflaðar.

Það þarf að stórfjölga í lögreglunni. Það er talað um 1 milljarð. Sá milljarður væri fljótur að borga sig í færri slysum. Ég held að eitt það besta sem við gætum gert væri að manna lögregluna þannig að hún geti sinnt starfi sínu fullkomlega. Ég held að það skili sér margfalt til baka, bara í fækkun umferðarslysa værum við búin að ná þeim kostnaði margföldum til baka.