149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013. Flutningsmenn frumvarpsins auk mín eru hv. þm. Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir og Brynjar Níelsson.

Í frumvarpinu er lagt til að 3.–7. mgr. 5. gr. laganna falli brott og að við 6. gr. laganna, um skjöl undanþegin stimpilgjaldi, bætist nýr stafliður, svohljóðandi: „Skjöl er varða kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði.“

Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði alfarið afnumið. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á húsnæði en er þó veittur helmingsafsláttur ef um er að ræða fyrstu kaup. Hér er lagt til að gjaldið falli alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og undanþága verði ekki bundin við fyrstu kaup.

Virðulegi forseti. Við þekkjum auðvitað flest stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag. Undanfarin ár hefur skortur á íbúðum á hagstæðu verði á stórhöfuðborgarsvæðinu gert markaðinum illt. Nú segja þó margir að loks horfi til örlítið betri vegar á framboðshliðinni á stórhöfuðborgarsvæðinu. Þó virðist vera að of margar nýjar íbúðir séu of dýrar og aðeins of stórar og svari ekki beint vöntun á markaði. Það hefur leitt til þess að skortur á íbúðarhúsnæði hefur verið á höfuðborgarsvæðinu, sér í lagi í Reykjavík, sem leitt hefur til verra flæðis, að eldra fólk eigi erfiðara með að minnka við sig og þeir sem eru komnir með fullt hús af börnum eigi erfiðara með að stækka við sig. Það er þetta flæði sem ég vona m.a. að afnám stimpilgjalds geti hjálpað við því það myndi auðvitað gera það ódýrara að flytja. Við verðum að hjálpa þessu flæði og stuðla að eðlilegum húsnæðismarkaði, það sé auðvelt að stækka við sig og síðan minnka við sig aftur til að losa um bæði stærri og minni eignir sem til eru.

Við getum auðvitað staðið hér í allan dag og rætt um stöðuna á húsnæðismarkaðnum, þróunina síðustu ár og hvaða blikur séu nú á lofti. Þar er ýmislegt sem þarf að gera, sumt á vegum okkar og annað á vegum annarra. Eitt af því sem við getum gert er að minnka álögur og skatta. Afnám stimpilgjalds er vissulega skref í þá átt og fyrir því tala ég í dag.

Virðulegi forseti. Markmiðið er fyrst og fremst að reyna að auka skilvirkni og auðvelda flæði á markaðnum. Það er þörf á því að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast eigið íbúðarhúsnæði. Í nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að 86% leigjenda vilja eignast sitt eigið húsnæði. Það er þeirri þörf og þeirri löngun fólks sem við stjórnmálamenn eigum að reyna að svara og tryggja raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum. Að byggja upp fólk, fjárhagslega öruggt og sjálfstætt, er eitthvað sem sumum hugnast illa en eitthvað sem mér hugnast afar vel. Það breytir því ekki auðvitað að sumir vilja vera í leiguhúsnæði. Sumum hentar vel að vera í því í skemmri tíma, t.d. ungu fólki í námi. Aðrir vilja hreinlega búa í leiguhúsnæði og það er slíkt valfrelsi sem við þurfum að stuðla að. En valfrelsið er auðvitað lítið ef húsnæðismarkaðurinn er þungur.

Stefna okkar á ekki bara að einblína á að byggja ótakmarkað magn af leiguhúsnæði heldur gera það sem við getum, innan skynsamlegra marka, til að aðstoða einstaklinga við að eignast sitt eigið húsnæði. Það gerum við með því að reyna að létta undir með fólki, hvort sem það er með séreignarsparnaði eða með því að gera húsnæði talsvert ódýrara með afnámi stimpilgjalda. Skattar og gjöld á fasteignaviðskipti hafa áhrif til hækkunar fasteignaverðs og rýra hlut kaupenda og seljenda. Það má því ætla að afnám stimpilgjalda af fasteignaviðskiptum muni auðvelda skilvirkni og verðmyndun á húsnæðismarkaði, vonandi með tilheyrandi aukningu á framboði og betra flæði.

Við fasteignakaup greiða húsnæðiskaupendur eins og fyrr sagði 0,8% gjald í formi stimpilgjalds. Fyrir 35 millj. kr. íbúð greiðir kaupandi tæpar 300.000 kr. í aukaskatt eða 150.000 kr. við fyrstu fasteign. Fyrir 75 millj. kr. íbúð er gjaldið orðið 600.000 kr. Þannig mætti áfram telja. Það má öllum vera ljóst að skattgreiðsla upp á nokkur hundruð þúsund kr. við fasteignakaup er hvorki réttlætanleg né sanngjörn. Það er þessi blessaða stimpill sem fólk spyr um: Hvers vegna er hann svona dýr? Hver er þessi stimpill? Mér finnst það afar góð spurning af því að þetta hlýtur að vera afar úrelt gjald.

Það má að sjálfsögðu ítreka það að fjárhagslegt sjálfstæði og öryggi einstaklinga og fjölskyldna er verkefni stjórnmálamanna, að reyna að hvetja ungt fólk til að stíga skref í átt að fjárhagslegu sjálfstæði og stuðla að því og hjálpa eins og við getum, eins og með þessu, til að fjölskyldur geti staðið á eigin fótum. Hið opinbera getur komið til móts við almenning með því að fella niður stimpilgjald af lánum. Það er eins og fyrr sagði ekkert annað en aukaskattur sem kemur harðast niður á unga fólkinu okkar sem er að stíga sín fyrstu skref í átt að fjárhagslegu sjálfstæði með íbúðakaupum.

Það er annað mál sem hefur verið lagt fram um stimpilgjöld sem ekki er á dagskrá í dag sem er um að afnema stimpilgjöld sérstaklega af skipum. Mig langar að vekja athygli á því, fyrst við erum að ræða alls konar stimpilgjöld, að ég mæli hér fyrir afnámi stimpilgjalda á kaupum einstaklinga á íbúðarhúsnæði og tel það mikilvægt fyrsta skref, en síðan eru önnur stimpilgjöld sem eru einnig afar ósanngjörn og íþyngjandi. Það má nefna að það hafa áður verið gerðar breytingar á stimpilgjöldum hér á þingi, t.d. um að skjöl tengd eignayfirfærslu á loftförum, minni skipum og kaupskipum séu undanþegin stimpilgjaldi. Enn bera skip sem eru yfir fimm brúttótonnum stimpilgjald þegar eignayfirfærsla á sér stað. Það er auðvelt að segja að hér gildi ekki jafnræði milli atvinnugreina og að þetta dragi örugglega úr sveigjanleika greinarinnar og tekjuöflun.

Að því sögðu held ég að við þurfum að líta til gjalda líkt og þessara sem eru orðin úrelt og þora að afnema þau. Þannig mega frumvörp líka vera, þau mega líka afnema úreltan skatt. Stjórnmálamenn eru kjörnir til að gæta hagsmuna almennings en ekki ríkisins. Þetta stimpilgjald er tekið úr vösum almennings og fyrir meginþorra almennings skipta þessar upphæðir verulegu máli við íbúðakaup. Það er aldrei óábyrgt að horfa á hlutina út frá því og í þessu tilviki aðallega út frá sjónarhóli ungs fólks sem er að koma sér þaki yfir höfuðið.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari frumvarpið til efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr. Ég vona að þinginu lánist að samþykkja að létta byrðum af fólki sem er að kaupa sér húsnæði eða færa sig til á markaðnum.