149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir framsöguna. Við erum ekki á nákvæmlega sömu blaðsíðu í málinu, ég og hv. þingmaður, en það er líka allt í lagi. Ég lít þannig á að skattkerfi okkar sé eitt mikilvægasta tækið sem við höfum til að auka jöfnuð í samfélaginu og lít í því tilliti á þessar tekjur sem hluta af heildarpakkanum.

Það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að það sé að sumu leyti ósanngjarnt að innheimta skatt á þennan hátt. En mig langar að inna þingmanninn eftir því hvort fram hafi farið skoðun á því meðal flutningsmanna að binda þá breytingu sem þau leggja til eingöngu við það þegar fólk á eina eign. Hér er talað um allt íbúðarhúsnæði, kaup einstaklinga á öllu íbúðarhúsnæði, og það gæti líka átt við þegar einhver safnar að sér fjölmörgum eignum til útleigu og þess háttar. Hefur þingmaðurinn velt því fyrir sér hvort það væri flötur á því að láta þetta snúast eingöngu um að það, þ.e. ekki allt íbúðarhúsnæði heldur annaðhvort binda það við húsnæðið sem viðkomandi ætlar að búa í eða við eina eign, í mesta lagi tvær eins og ætti kannski við þegar fólk á fasteignir í tveimur landshlutum og hefur skipta búsetu.