149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að ég svari hv. þingmanni skýrt hef ég ekki áhuga á að breyta frumvarpinu á þennan hátt. Ég tel stimpilgjaldið almennt vera úreltan skattstofn og legg til sem fyrsta skref afnám þess á alla einstaklinga sem kaupa sér húsnæði. Ef þetta væri eitthvað sem væri hægt að gera í fyrsta skrefi og síðan kæmi á eftir afnám allra stimpilgjalda væri ég vel til í að skoða það, en þá með það að markmiði að afnema öll stimpilgjöld.

Ég veit að hv. þingmaður er ekki mikið fyrir skattalækkanir en ég veit líka að hv. þingmaður berst fyrir því að bæta lífskjör fólks. Hér er eitt mál sem getur stuðlað að því að hleypa flæði í húsnæðismarkaðinn, gera það ódýrara að eignast eigið húsnæði, af því að það er alveg klárt að flestir Íslendingar vilja eignast eigið húsnæði, búa í eigin húsnæði og geta flutt sig á milli húsnæða þegar þörf krefur eða fjölskyldan stækkar eða minnkar. Þess vegna legg ég ekki til að þetta sé aðeins á fyrstu kaupendur. Við þurfum slíkt flæði og eigum einfaldlega ekki að skattleggja fasteignaviðskipti fólks.