151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Á Íslandi eru nú 95 smit, ekkert á landamærum. Í Nýja-Sjálandi eru þau 73 á landamærum, ekkert innan lands. Ef Nýja-Sjáland væri Ísland væru smitin þar líklega 1.300 miðað við fólksfjölda en eru 73. Nýsjálendingar tóku ákvörðun um að banna óþarfa ferðalög og skikka fólk í sóttvarnahús. Hefur komið til álita hjá ríkisstjórninni eða hjá hæstv. heilbrigðisráðherra sjálfri, þó að það hafi ekki komist í gegnum ríkisstjórn, að banna einfaldlega ferðalög til Íslands nema algerlega nauðsynleg ferðalög, og skylda þá sem koma hingað í sóttvarnahús? Telur hún lagaheimild skýra fyrir slíkri skyldu? Hvaða áhrif hefur t.d. það sem Bretar eru að gera, að banna ferðalög (Forseti hringir.) og sekta fólk sem fer að nauðsynjalausu út úr landinu? Telur hún mögulegt að Ísland og ríkisstjórn Íslands taki upp eitthvað slíkt til að verja íbúa landsins?