151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram koma hjá hv. þingmanni um mikilvægi þess að skiptast á skoðunum um þær ákvarðanir sem verið er að taka, en ekki síður að upplýsa eins vel og hægt er. Við höfum haldið til haga upplýsingafundum almannavarna í gegnum allan faraldurinn. Það er nokkuð sérstakt fyrir Ísland að gera það þó að mest sé fylgst með þessum upplýsingafundum þegar erfiðustu ákvarðanirnar eru í gangi og þegar blikur eru á lofti í faraldrinum er afar mikilvægt að þessi upplýsingagjöf sé með reglubundnum hætti.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um hvort reglurnar séu endurskoðaðar reglulega eða hvort það verði bara gert að þremur vikum liðnum. Það er gert mjög reglulega og meira að segja þannig að ein ákvörðun var tekin í gær til rýmkunar. Hún snerist um það að við höfðum gert ráð fyrir því að það mættu að hámarki vera 50 manns í lyfjaverslunum og matvöruverslunum óháð stærð rýmisins. En við nánari skoðun og líka með tilliti til þess hversu vel hefur gengið í matvöruverslunum og apótekum að virða reglur og halda vel utan um þessi mál var sú tala hækkuð upp í 100 með breytingum á reglugerð í gær og lítilli fréttatilkynningu þar um. Þannig að við erum alla daga að fylgjast með áhrifunum og gæta þess að hafa herðingarnar ekki meiri en nauðsynlegt er, en samt að grípa í handbremsuna af þeim krafti sem þarf til þess að ná utan um faraldurinn hratt og vel.