151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Jú, algerlega. Í fyrsta lagi er markmiðið með því að taka svona harkalega í handbremsuna, eins og við segjum, auðvitað að geta losað hana með mjög afgerandi hætti að loknum þremur vikum ef við metum stöðuna nægilega örugga. Við erum orðin dálítið sjóuð í þessu. Það eru alltaf þrjár mögulegar sviðsmyndir uppi: Að halda reglunum, slaka á þeim eða herða þær.

Ástæðan fyrir því að við gerðum þetta svona hratt núna var fyrst og fremst að sóttvarnalæknir taldi að með því að gera það með þeim hætti væru meiri líkur á að við næðum tökum á stöðunni hratt og vel. Við vorum sammála honum um það. Ég er líka þeirrar skoðunar að engin ástæða sé til að hverfa frá þeirri bjartsýni sem við vorum með í huga þegar við töluðum um stöðuna fljótlega eftir áramót. Bólusetningum vindur náttúrlega fram óháð þeirri stöðu sem er núna innan lands og við höfum raunar fengið nokkuð jákvæðar tölur varðandi Janssen-bóluefnið og hversu mikið magn af því kemur á öðrum ársfjórðungi. Þó að það komi ekki sérlega hratt núna í apríl mun það koma töluvert hraðar í maí og júní, sem er mjög jákvætt vegna þess að þá þarf bara eina sprautu. Það má segja að við séum ekki að trufla taktinn að því er varðar bólusetningar og möguleika á því að við getum aftur náð utan um samfélagið, en það setur auðvitað líka strik í reikninginn hvernig faraldurinn er í löndunum í kringum okkur.