151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ef við erum til að mynda að tala um vottorð um bólusetningu, þá hefur maður ekki vottorð undir höndum nema að hafa farið tvisvar, þ.e. ef bóluefnið gerir ráð fyrir því. Varðandi allt það fólk sem hefur fengið fyrri skammt af AstraZeneca, og er þá hluti af þessum hópi heilbrigðisstarfsfólks og gjarnan ungs fólks, þá er verið að skoða það, ekki bara hér heldur víða, hvernig best sé að bregðast við þeirri stöðu. Við höfum tíma vegna þess að gert er ráð fyrir að þrír mánuðir líði á milli fyrri og seinni bólusetningar með AstraZeneca. Það er því tími til að kanna og fara í saumana á því hvernig best sé að bregðast við. Það er ekki bara verið að skoða það hér á landi heldur er sóttvarnalæknir í sambandi við kollega sína víða um lönd til að meta þá stöðu.