Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nú á alþjóðlegum baráttudegi kvenna hafa stórar kvennastéttir í Eflingu samið við harðdræga viðsemjendur sína um hóflegar launahækkanir um leið og þeim tókst að árétta, svo ekki fór á milli mála, að félagið hefur raunverulegan verkfallsrétt og er raunverulegur viðsemjandi. En nú vaknar spurningin: Hver er raunverulegur viðsemjandi forstjóranna? Hver er það sem samþykkir ævintýralegar launakröfur þeirra? Það verður seint sagt að sá viðsemjandi sé harður í horn að taka eða vökull gæslumaður þjóðarhags, því að það eru forstjórarnir sem standa sjálfir fyrir launaskriðinu hér sem veldur búsifjum í þjóðarbúskapnum. Forstjórarnir eru í frjálsu svifi þegar kemur að launatölum. Fljúgum hærra, fljúgum hærra, er þeirra mottó. Þessum óraunhæfu launakjörum efsta lagsins í samfélaginu fylgir verðbólga, hækkandi vextir sem eru að sliga almenna lántakendur í krónuhagkerfinu, því að þó að forstjórarnir virðist stundum halda annað þá búa þeir í samfélagi við okkur hin. Eitthvert mesta böl okkar tíma er vaxandi launamunur. Hann slítur samfélagið í sundur. Hann rýfur samfélagssáttmálann sem verður að vera haldinn í heiðri svo við getum búið hér saman.

8. mars. Þessi dagur minnir okkur á þá sigra sem unnist hafa í baráttu kvenna fyrir jafnrétti, þó að vissulega og auðvitað sé enn löng leið fyrir höndum og bakslag á ýmsum sviðum. En á aðeins einni öld hefur samt tekist að afsanna að það sé náttúrulögmál að karlar skuli ráða öllu eða yfirleitt vænlegt til árangurs. Launamunur kynjanna er ekki heldur samkvæmt náttúrulögmáli. Óréttlæti er aldrei eðlilegt. — Til hamingju með daginn, konur.