Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að draga fram hér á þingi hvað við getum verið stolt af því að eiga fyrirtæki eins og Landsvirkjun, fyrirtæki í eigu þjóðarinnar allrar, sem býr yfir sterkum mannauði, skýrri framtíðarsýn og skilar mikilvægum arði til eigenda sinna, okkar allra. Það var áhugavert að sitja ársfund fyrirtækisins í Hörpu í gær og hlýða á erindi um hvernig áætlanir sem voru mótaðar fyrir áratugum síðan eru enn að skila árangri í dag, okkur öllum til heilla. Á sama tíma var það líka góð brýning að heyra forsvarsfólk fyrirtækisins minna á mikilvægi þess að stinga ekki hausnum í sandinn þegar kemur að mikilvægum pólitískum ákvörðunum. Eigi Ísland að verða forystuþjóð þegar kemur að grænum orkuskiptum, sem við höfum alla burði til að vera, þarf að fara að taka ákvarðanir um framtíðina strax í dag. Ég óttast að samsetning ríkisstjórnarinnar sé enn og aftur að verða þess valdandi að við ýtum stórum spurningum og ákvörðunum á undan okkur og missum af tækifærinu til að skara fram úr. Fordæmi Landsvirkjunar ætti líka að vera ríkisstjórninni sérstök hvatning um langtímahugsun og að leyfa sér langtímahugsun og berjast fyrir langtímahugsunin. Niðurgreiðsla skulda, réttmæt og sanngjörn endurgreiðsla til þjóðarinnar fyrir nýtingu á auðlindum er góður jarðvegur til að ráðast í mikilvæg framþróunarverkefni og bæta þannig lífskjör og samkeppnisstöðu landsins. Ég vona að þeir ráðherrar og stjórnarliðar sem sátu fundinn í gær taki þessa aðferðafræði til sín, hugsi langt, framkvæmi rétt og passi upp á jafnvægi milli náttúru og nýtingar og nauðsyn þess að þjóðin fái notið afrakstursins.