Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er mikilvægt að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum. Það er sláandi að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna. Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi viðfangsefni, annars tapast áunnin réttindi og framþróun stöðvast. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.

Áskoranir hér á landi eru margar. Ég nefni nokkrar: launamun og kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja verður eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi en sú vinna er í góðum farvegi eftir að við höfðum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við allt of margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi. Við sjáum líka bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka.

Í tilefni dagsins hvetur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna til tafarlausra og samræmdra aðgerða til að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna í heiminum en um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.

Fyrir ári ræddi ég stöðu kvenna í Úkraínu og hún er því miður enn verri núna. Stóra óskin á þessum degi er, eins og þá, að úkraínskar konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.