Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Í gær fór fram ársfundur Landsvirkjunar þar sem kom ansi margt mikilvægt og áhugavert fram. Fundurinn bar heitið Grunnur grænna samfélags, en Ísland býr við þau forréttindi að geta orðið fyrsta land í heiminum án jarðefnaeldsneytis. Til að ná settum markmiðum er afar mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn. Svo ég byrji á jákvæðum fréttum þá kom fram að Landsvirkjun hefði skilað methagnaði annað árið í röð og meðalverð til stórnotenda hefði hækkað og skuldastaða lækkað. Er því tillaga frá stjórn fyrirtækisins að skila 20 milljörðum í arðgreiðslur til ríkisins auk þess sem 30 milljarðar fara í skattgreiðslur.

Ég vil nýta tækifærið hér og hrósa stjórnendum og starfsmönnum fyrir góðan árangur. Þessar fjárhæðir skipta verulegu máli fyrir þjóðarbúið, sérstaklega nú á tímum. Reksturinn gengur vissulega vel og því ber að fagna en það eru hins vegar vísbendingar um að ef ekkert verður að gert geti fljótt syrt í álinn. Staðreyndin er nefnilega sú að raforkukerfi Landsvirkjunar er fullnýtt. Engin afgangsorka er til og ef við ætlum að fullnægja eftirspurn og tryggja orkuöryggi þá þurfum við einfaldlega að virkja meira. Ýmsar leiðir eru vissulega til til að bregðast við ástandinu, m.a. að nýta orkuna okkar betur, en veruleikinn er hins vegar sá að veruleg umframeftirspurn er eftir orku í kerfinu og hefur Landsvirkjun þurft að hafna mörgum umhverfisvænum og áhugaverðum verkefnum sökum þessa. Við þurfum því að draga úr orkunotkun okkar en það eitt mun ekki duga til heldur þurfum við að halda áfram að byggja upp samfélag okkar eins og við erum vön úr þeim lífsgæðum sem við erum vön (Forseti hringir.) þar sem íbúar búa við hóflegt orkuverð, öfugt við flestar aðrar þjóðir heimsins. En verkefni okkar hér á Alþingi er að ná samstöðu um þetta mál, (Forseti hringir.) hvert við ætlum að stefna og einmitt að hafa skýra framtíðarsýn.