Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ríkisstjórnin hefur tekið alls konar ákvarðanir um húsnæðismál á undanförnum árum sem flestar hafa verið eftirspurnaraukandi. Ákvörðunin um að geta notað séreignarsparnað til þess að kaupa íbúð eða til að greiða niður höfuðstól láns t.d. er í sjálfu sér ákveðin ákvörðun en ókosturinn við þá ákvörðun er að þetta er ákvörðun fyrir fólk með tiltölulega há laun. Staðan í dag er því sú, þrátt fyrir allar hugmyndir stjórnvalda, að eftir nær áratug af húsnæðisskorti hefur engin ákvörðun stjórnvalda dugað til að leysa húsnæðisvandann með tilheyrandi markaðsáhrifum. Skortur á húsnæði leiðir til hækkunar á húsnæðisverði af því að fólk þarf þak yfir höfuðið. Það hefur enga valmöguleika um annað. Ég er farinn að halda að stjórnvöld vilji hafa húsnæðisskort því að hærra húsnæðisverð bætir skuldastöðu þeirra sem eiga húsnæði svo mikið, að það sé einhvers konar efnahagsleg aðgerð að fórna húsnæðisöryggi fyrir betri skuldastöðu, því að ráðamenn monta sig ítrekað af bættri skuldastöðu heimilanna þrátt fyrir að ástæður þess séu ekki lægri skuldir heldur verðmætari eignir. Sú verðmætaaukning er hins vegar bara á blaði því að fólk þarf þak yfir höfuðið. Krónum í vasa fjölgar ekkert þegar húsnæðið verður verðmætara, en lánagjöld hækka hins vegar.

Nú segir iðnviðaráðherra að húsnæðismarkaðurinn gegni lykilhlutverki og stjórnvöld verði að tryggja lóðaframboð með samkomulagi við einstök sveitarfélög. Á höfuðborgarsvæðinu voru 14.000 íbúðir í byggingu fyrir ári síðan af þeim rúmlega 58.000 sem var búið að samþykkja. Það er sem sagt alveg nóg til af lóðum, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúafjöldi hefur aukist úr 61% landsmanna upp í 64% á undanförnum tveimur áratugum. Ég veit ekki hvaða lóðaframboð þarf að tryggja með samningum en stjórnvöld eru augljóslega ekki að leysa nein vandamál á húsnæðismarkaði. Stjórnvöld vilja tryggja lóðaframboð þegar það er nóg af lóðum. Er það í alvörunni tillaga stjórnvalda?