Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[15:43]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Með leyfi: „Raunin er sú að við erum í miðju góðæri og helsta vandamál okkar er mikil þensla. Þessi skilaboð er Seðlabankinn að senda þegar hann hækkar vexti í því skyni að kæla hagkerfið.“

Þetta ritaði hæstv. fjármálaráðherra um helgina.

Fjármálaráðherra talar um góðæri á meðan almenningur í landinu greiðir tugi eða hundruð þúsunda hærri upphæðir fyrir húsnæði í hverjum mánuði, góðæri þegar fjölskyldurnar í landinu greiða sífellt hærra verð fyrir matarkörfuna.

Vissulega er þensla og margir búa við góðæri. En góðærið er þeirra sem eiga. Góðærið er hjá þeim fyrirtækjum sem geta tekið lán í erlendum gjaldmiðlum á miklu lægri vöxtum. Góðærið er þeirra fjármagnseigenda sem selja og kaupa krónur á víxl, allt eftir því hvernig vindar blása. Og þótt helsta tæki Seðlabankans gegn verðbólgu sé vissulega að hækka stýrivexti þá bíta þeir nú fyrst og fremst almenning og lítil fyrirtæki í slíku umhverfi. Þær fjölskyldur, sem trúðu hæstv. forsætisráðherra þegar hann sagði Íslendinga stadda í nýjum veruleika í vaxtamálum, þegar Seðlabankinn brást við alkuli efnahagslífsins í Covid og keyrði vexti niður, sitja nú í súpunni, og glíma við himinháa vexti og verðbólgu. Þeirra er góðærið ekki og við því þarf ríkisstjórnin að bregðast.

Það er rétt hjá ráðherra, það er þensla. En það verður að vinna gegn þenslunni þar sem hana er fyrst og fremst að finna, en hlífa öðrum. Þess vegna lagði Samfylkingin fram kjarapakka í haust þar sem slíkar lausnir eru grundvöllurinn. Eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og mikinn hagnað bankanna er eðlilegt að sýna aðhald og kæla hagkerfið þar sem vöxturinn er. Samfylkingin telur því ábyrgt að sækja tímabundið fjármagn til þeirra sem lifa góðærið sem fjármálaráðherra talar um og nýta það til að ráðast í aðgerðir fyrir þá hópa sem ástand dagsins leikur grátt. Við lögðum t.d. til tímabundna leigubremsu að danskri fyrirmynd. Í því máli erum við algjörlega samstiga verkalýðshreyfingunni og raunar hafa formenn bæði Vinstri grænna og Framsóknarflokksins virst jákvæð í garð hugmyndarinnar.

Ég spyr: Hvernig líst fjármálaráðherra á þær og hafa slík úrræði verið rædd í ríkisstjórn? Hvaða aðrar mótvægisaðgerðir hafa verið til umræðu innan ríkisstjórnar? Er hæstv. ráðherra sammála mér um að tempra þensluna þar sem hún er og ráðast tímabundið í þá auknu tekjuöflun sem ég nefndi til að auka aðhald í ríkisfjármálum? Eða telur ráðherra hana vera annars staðar? Hverjar eru að hans mati helstu ástæðurnar fyrir jafn háum verðbólguvæntingum og raun ber vitni? Eru það ofurlaun forstjóra eða er það hjá ræstingafyrirtækjum sem velta kostnaði af hóflegum kjarasamningum, jafnvel afturvirkum launahækkunum, yfir á þjónustukaupa og beint út í verðlagið? Eða er það kannski vegna þess að ríkisstjórnin boðar ekki fyrirsjáanleika og enga forystu þegar kemur að efnahagsmálum? Eða telur hæstv. ráðherra þetta bara vera almenningi að kenna?

Herra forseti. Almenningur í landinu getur ekki búið við jafn háa verðbólgu og vexti og nú er og fyrirsjáanlegt er að verkalýðshreyfingin sæki kjarabætur í gegnum launaliðinn þegar ríkisstjórnin hefur gefist upp á því að reka velferðarkerfið og styrkja samfélagið.

Herra forseti. Nú eru sléttar þrjár vikur í nýja fjármálaáætlun og mikilvægt að þar verði almenningi og velferðarkerfinu hlíft eins og kostur er og tekið á þenslunni þar sem hana er raunverulega að finna. En því miður er tónninn sem farinn er að heyrast frá ríkisstjórninni sá að um verði að ræða flatan niðurskurð. Ég spyr því: Hver yrðu áhrif slíks aðhalds á ástandið í heilbrigðiskerfinu, á húsnæðismarkaðinn og afkomuvanda heimila að mati hæstv. fjármálaráðherra? Hæstv. fjármálaráðherra hefur nú í sömu vikunni bæði gripið til frasans um að allir verði að leggjast á árarnar og að allir verði snúa bökum saman. Og í gærkvöldi heyrði ég hann í fréttum tala um nauðsyn þjóðarsáttar. Þá vaknar spurningin: Hverjir eiga að taka þátt í þessari þjóðarsátt og hvert verður innlegg ríkisstjórnarinnar í hana? Í orðinu þjóðarsátt felst nefnilega að allir sem telja sig hafa hag af því snúi bökum saman og leggist saman á árarnar, eins og hæstv. ráðherra komst svo snyrtilega að orði. En þjóðarsátt næst aldrei nema þorri almennings skynji sanngirni, sem felst í því að þau sem eru aflögufær leggi sitt af mörkum en hinum hlíft sem eru það ekki.

Stóra verkefni ríkisstjórnarinnar nú er að leiða saman hópa með réttlátum aðgerðum og fjármálaáætlun, sem eru nógu trúverðugar til að slá á verðbólgu og gera vaxtalækkunarferli aftur mögulegt.