Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:10]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Verðbólga er alltaf afleiðing hegðunar. Í upphafi heimsfaraldurs voru teknar hér ákvarðanir um að verja fólk og fyrirtæki. Var það gert með stuðningi ríkis og á fimmta hundrað milljörðum var dælt út í hagkerfið úr ríkissjóði til að halda uppi atvinnustigi í landinu. Á sama tíma lækkuðu vextir hratt og laun héldu áfram að hækka. Kaupmáttur jókst. Afleiðingar þessara aðgerða erum við að kljást við núna. Eftir efnahagslægð heimsfaraldurs er hagkerfið okkar á batavegi og hefur vaxið. Hagkerfið er nú orðið stærra en það var í upphafi faraldurs en á sama tíma eykst verðbólgan líka. Þar spilar inn í styrjöld í Evrópu og hækkandi orkuverð úti um allan heim. Hagvöxtur síðasta árs var rúm 7% og er mesti hagvöxtur frá árinu 2002 hér á landi. Kreppan varð skammvinnari og grynnri en spámenn væntu fyrir þremur árum síðan.

Þessu fylgja vaxtarverkir. Sambland mikilla vaxtalækkana, launahækkana og ríkisstuðningur við atvinnulífið hefur afleiðingar. Því skal haldið til haga að aðgerðir ríkisstjórnarinnar með hækkun húsnæðisbóta, vaxtabóta, barnabóta og hækkun bóta almannatrygginga voru til þess að verja þá sem höllustum fæti standa. Ríkisstjórnin skal njóta sannmælis. Þær aðgerðir sem ráðist var í skiluðu tilætluðum árangri. Áhættan við að gera of lítið var aldrei meiri en það sem við erum að glíma við núna. Með hækkun stýrivaxta er í raun verið að slá á hegðun fólks og fyrirtækja, hvetja til sparnaðar og draga úr gleði framkvæmda og neyslu. Minnka svigrúmið. Það sem mun reynast okkur best í baráttunni við verðbólguna er að draga úr ríkisumsvifum, og þar með lækka ríkisútgjöld, og hóflegar launahækkanir allra hópa. Með þessum aðgerðum munum við tryggja kaupmátt allra hópa og það hlýtur að vera markmiðið.