Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Fyrir síðustu kosningar ritaði hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson grein í Morgunblaðið sem gekk undir nafninu „Stöðugleiki eða óvissuferð“. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Íslensk heimili finna að við erum á réttri leið. Skattarnir hafa lækkað, verðbólgan er lág […] Fólk fær meira fyrir launin sín. Þetta mun breytast ef ný ríkisstjórn setur verðbólguna af stað aftur. Við borgum fyrir loforðalistana með hærra vöruverði.

Tugþúsundir Íslendinga eru nú með lægri afborganir af lánum eftir endurfjármögnun vegna þess að vextir eru lágir. Útgjaldalistinn mun hækka vextina og verðbólguna aftur. Afborganirnar hækka með.“

Nú er liðið um eitt og hálft ár frá því að ný ríkisstjórn tók við og þessi spá ráðherrans hefur ræst. Verðbólgan er komin á fleygiferð, tugþúsundir Íslendinga horfa upp á miklu hærri afborganir af lánum og vöruverð hefur heldur betur hækkað. Þetta er nýja ríkisstjórnin hans Bjarna Benediktssonar.

Nú þegar fjármálaráðherra kallar eftir þjóðarsátt um að stemma stigu við verðbólgu, sem ríkisstjórn hæstv. fjármálaráðherra sjálfs setti af stað, er vert að spyrja: Þjóðarsátt hverra? Ráðherra er nefnilega ekki tilbúinn að beita sér gegn þenslunni þar sem hún er mest. Hann vill ekki hækka fjármagnstekjuskatt þó að fjármagnstekjur hafi aldrei verið hærri en undanfarin ár. Hann vill ekki hækka álögur á útgerðina sem skilar methagnaði ár eftir ár og græðir grimmt á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Ráðherrann vill ekki setja hvalrekaskatt á alla þá sem græddu á tá og fingri á þeim fordæmalausu aðstæðum sem við gengum öll í gegnum hér um árið. Þjóðarsáttin hlýtur þá að vera einhvers konar krafa um það að almenningur hafi sig hægan og sætti sig við að leiguverð og afborganir af húsnæðislánum hækki um tugi prósenta og að vöruverð hækki um tugi prósenta án þess að því sé svarað með viðeigandi hækkun á launum.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki þjóðarsátt sem þjóðin ætti að sætta sig við.