Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:47]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að segja að ég er sammála hæstv. forsætisráðherra varðandi þá viðleitni sem býr að baki þessari tillögu. Ég er sammála því að brýn þörf sé á að bæta stöðu og réttindi fólks í viðkvæmri stöðu hér á landi með því að verja það gegn hatursorðræðu. En talandi um bakslag þá nefndi hæstv. forsætisráðherra bakslag í sinni ræðu. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í orðræðu sem viðhöfð er af hennar eigin ríkisstjórn og þingmönnum meiri hlutans þar sem öllum er orðið ljóst að til að réttlæta rasíska stefnu sína í útlendingamálum hafa bæði þingmenn meiri hlutans og ráðherrar í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra leyft sér að tala með hætti sem kyndir undir ótta og andúð í garð innflytjenda, einkum og fyrst og fremst þeirra innflytjenda sem eru í einna viðkvæmastri stöðu; fólks á flótta. Hæstv. dómsmálaráðherra hræðir almenning með tali um stjórnlaust ástand, þingmenn meiri hlutans halda á lofti tilhæfulausum tilgátum um að flóttafólk sem hingað leitar komi á fölskum forsendum og jafnvel er ýjað að því með útúrsnúningum og upplýsingaóreiðu að flóttafólk hafi tengingu við skipulagða glæpastarfsemi. Allt er þetta til þess fallið að auka á jaðarsetningu fólks sem þegar er gríðarlega berskjaldað. Í mjög góðri ræðu á Austurvelli fyrir stuttu benti Þórunn nokkur Ólafsdóttir, mögnuð kona sem hefur mikla reynslu af þessum málaflokki, á það að hvort sem hatursfullt útlendingafrumvarp hæstv. dómsmálaráðherra í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra verður að lögum eða ekki þá sé skaðinn skeður með þeirri orðræðu sem bæði þingmenn og ríkisstjórn leyfa sér að viðhafa í tengslum við málið. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að gera til að snúa við þessari þróun, bregðast við þessari framkomu hennar eigin ríkisstjórnar?