Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur andsvarið. Þingmaðurinn hefur látið sig varða nákvæmlega þetta, þ.e. þessa skautuðu umræðu sem við erum búin að sjá ágerast, ekki bara í heiminum heldur í okkar samfélagi. Hún er ógn við okkar grunngildi sem eru lýðræðið og mannréttindin. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við séum reiðubúin að taka okkur sjálf sem samfélag til skoðunar í þessum málum. En þetta er flókið vegna þess að eins og hv. þingmaður segir réttilega þá viljum við líka standa vörð um tjáningarfrelsið. Það voru reyndar helstu athugasemdirnar sem komu fram við þessa tillögu þegar hún var í samráði, að það þyrfti að fara varlega gagnvart tjáningarfrelsinu. Ég er algerlega sammála þeim sjónarmiðum. Það skiptir máli að við gætum ávallt að vernd skoðana og tjáningarfrelsis en það breytir því ekki að tjáningarfrelsið er ekki ótakmarkað. Þó að við séum ekki með eina alþjóðlega skilgreiningu á hatursorðræðu þá höfum við skilgreint hana að íslenskum lögum, við höfum tilmæli Evrópuráðsins sem við styðjumst við, þannig að ég tel að grunnurinn sé sterkur. Það sem skortir upp á er í raun og veru þetta samtal við þjóðina um það hvað við erum að tala um með þessum lagaákvæðum sem við höfum fallist á hér á Alþingi Íslendinga. Hvernig viljum við að þeim verði fylgt eftir? Þess vegna vek ég líka aftur athygli á því að þetta er ekki bara um fræðslu og vitundarvakningu. Þetta er líka um að gera úttekt á lagaákvæðunum sjálfum sem ég held að við gætum gert oftar til að vanda okkur betur sem löggjafinn og reyna að sjá aðeins fram í tímann. Ef við leyfum hatursorðræðu á borð við þá sem við höfum séð dæmi um í íslensku samfélagi að vaða uppi þá er það ógn við það lýðræðisskipulag sem skiptir okkur öll svo miklu máli.