132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:34]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að færa mál þetta í tal hér í þinginu um leið og ég fagna áhuga hans á því að hugað verði að nýjum og sérstökum rannsóknarúrræðum lögreglu til að takast á við flókin afbrot. Kveður þar við nýjan tón.

Lögregla verður að ráða yfir tækjum og heimildum sem gera henni kleift að berjast við sífellt flóknari afbrot. Afbrotamenn leita nýrrar tækni og nýrra úrræða við iðju sína og það er m.a. á ábyrgð okkar alþingismanna að sjá til þess að lögreglan geti mætt þeim með viðeigandi hætti.

Réttarfarsnefnd hefur unnið að endurskoðun laga um meðferð opinberra mála. Við þá vinnu er m.a. horft til sérstakra rannsóknaraðferða lögreglu og þar á meðal notkunar tálbeitna. Engin sérstök lagaákvæði eru nú um slíkar aðgerðir og verður því að miða við almennar réttaröryggisreglur. Rétt er að taka fram að Hæstiréttur hefur sakfellt fyrir brot sem upplýst var með notkun tálbeitu, enda taldi rétturinn að hinn ákærði maður hefði ekki verið lokkaður til að fremja brot sem hann hefði ekki áður haft ásetning til að fremja og að eðli brotsins hefði ekki verið breytt. Lögreglu er því heimilt að nota tálbeitu til að upplýsa mál þótt um slíkar aðgerðir gildi ekki sérstakar skráðar reglur. Verður lögregla að fara með ýtrustu gát noti hún virka tálbeitu til að upplýsa mál. Rannsókn máls verður t.d. að beinast að tilteknum grunuðum manni. Meginatriði er þó að tálbeitan verði ekki til að framið sé brot sem annars hefði aldrei átt sér stað.

Hér vísa ég til virkra tálbeitna, þ.e. tálbeitna sem lokka brotamann fram og taka jafnvel þátt í broti með honum, svo sem með því að koma fram sem kaupandi fíkniefna. Torvelt getur verið að setja tæmandi lagaákvæði um tálbeitur og hentugra getur reynst að fela t.d. ríkissaksóknara að móta reglur um skilyrði sem vera þyrftu fyrir hendi. Reglur frá ríkissaksóknara binda þó að sjálfsögðu ekki dómstóla með sama hætti og lög frá Alþingi.

Hv. málshefjandi nefndi sérstaklega hvort til greina kæmi að veita lögreglu heimildir til að gera tálbeitur út eftir mönnum sem grunaðir eru um að hyggja á brot gegn börnum. Slík brot þar sem væntanlegur brotamaður leggur snörur fyrir sér ókunnug börn sem eiga sér einskis ills von hljóta að sjálfsögðu að koma sterklega til álita. Það væri auðvitað strax mikið unnið ef tækist að fæla menn frá því að reyna að nálgast saklaus börn um netið. Notkun tálbeitna hlýtur þó fyrst og fremst að helgast af tilraunum til að hafa hendur í hári grunaðra manna. Þegar tálbeita er notuð til að lokka slíka menn úr skúmaskotum sínum er af augljósum ástæðum ekki hægt að halda leiknum svo lengi áfram að maðurinn fullfremji brotið eins og á hinn bóginn er hægt að gera í sviðsettum fíkniefnaviðskiptum, svo að dæmi sé tekið. Það atriði hlyti að hafa áhrif á hugsanlegar ákærur vegna mála sem yrðu til með þeim hætti.

Hv. málshefjandi spurði um reglur í öðrum löndum. Reglur um slíkar rannsóknir eru almennt ekki bundnar í lög heldur er byggt á ákveðnum verklagsreglum. Danir settu þó lög um notkun tálbeitna árið 1986. Auk þess eru lög um þetta efni í Austurríki, svo að tvö dæmi séu nefnd. Dönsku lögin mæla fyrir um ýmis skilyrði eins og að eingöngu lögreglumenn beiti aðgerðunum, einstaklingurinn sé ekki hvattur til að fremja brot nema fyrir liggi rökstuddur grunur um að afbrotið sé á framkvæmda- eða tilraunastigi, aðrar rannsóknaraðferðir dugi ekki til að afla sönnunargagna og brot varði minnst sex ára fangelsi ef það beinist gegn öryggi ríkisins.