132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:52]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Ég vil þó í upphafi máls míns taka það fram að ég missti bæði af ræðu hans og síðan svari hæstv. dómsmálaráðherra, því ég var önnum kafinn við að taka á móti glæsilegum hópi ungmenna frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi sem heimsótti okkur hér í Alþingishúsið.

Varðandi það mál sem hér er til umræðu þá er persónuleg skoðun mín skýr. Ég tel að það sé réttlætanlegt að nota tálbeitur í einstökum tilvikum til þess að ná svona glæpamönnum. Ég sá umræddan fréttaskýringaþátt sem var sýndur á sjónvarpsstöðinni NFS, í þættinum Kompás, og ég verð að segja að sá þáttur hafði djúpstæð áhrif á mig og vakti mig mjög til umhugsunar um þessi mál. Ég vil líka fá að segja það að ég treysti lögreglunni fyllilega og dómgreind hennar til að vega það og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að beita svona aðferðum til þess að ná þessum glæpamönnum, koma þeim undir lás og slá því að þar eru þeir best geymdir.

Það hefur ákveðið forvarnagildi að þessir menn viti að hægt sé að ná til þeirra með þessum hætti. Ég held að sjónvarpsþátturinn sem við sáum um daginn hafi líka haft mikið forvarnagildi og sú umræða sem fer fram hérna núna hefur líka ákveðið fornvarnagildi.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, vísa því á bug að stjórnarandstaðan öll í heild sinni hafi hér um daginn verið að tala eitthvað niður til lögreglunnar, að hún hafi verið að tala eitthvað niður eða gegn því að hér yrði sett á fót greiningardeild. Ég kom hér í ræðustól þá og ég man ekki til þess að ég hafi talað niður til lögreglunnar eða lagst neitt sérstaklega á móti þessari greiningardeild sem menn hafa verið að tala um, alls ekki.