132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

141. mál
[14:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér athyglisvert frumvarp til laga um það að heimila sveitarfélögum að hækka útsvarsstofn sinn úr hámarki núna 13,03% í 14,03%. Ég segi athyglisvert vegna þess að þetta eykur á sjálfsforræði sveitarfélaganna og ég er hlynntur því, herra forseti.

Við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga hafa skatttekjur verið fluttar með, útsvarsprósentan hefur verið hækkuð en skattprósenta lækkuð. Fyrir hinn venjulega borgara sést þetta ekki dagsdaglega því að hann borgar sína staðgreiðslu, bæði í útsvar og ríkissjóð, og flestir vita ekki að þeir borga útsvar af fyrstu krónu, það er almennt ekki vitað — þ.e. að ríkið borgar fyrir þá útsvarið af fyrstu krónu þannig að það er enginn persónufrádráttur í útsvarinu. Ríkið fer því ekki að fá skatt af tekjum fólks fyrr en við 107 þús. kr., eitthvað svoleiðis. Þessi flutningur verkefna hefur reynst mjög dýr og ráðdeildarsamir borgarar hafa spurt sig hvort sveitarfélögin séu eins ráðdeildarsöm og borgararnir sjálfir sem þurfa að gæta sín í peningamálum í húshaldinu.

Einhvern tíma steig fram maður og spurði: Hver vill ekki borga hærri skatta? Hann var svo sannfærður um að allir mundu vilja borga hærri skatta, sá maður, skrifaði um það grein. Ég er nú ekki alveg viss um það, herra forseti. Ég hygg að mjög margur Íslendingurinn telji sig betur geta ráðstafað sínum peningum en með einhverjum kjörnum fulltrúa í sveitarstjórn eða á Alþingi og fari miklu, miklu betur með og kunni miklu betur að fara með.

Í þessu frumvarpi felst, vegna þess að það er tilhneiging hjá sveitarfélögum að fara upp í hámarkið, þau trúa því væntanlega að allir vilji borga hærri skatta, að prósentan mundi fljótlega hækka. Það er alltaf nóg að eyða peningum í, hvort sem það eru feikidýr íþróttamannvirki eða mjög ríflegar hækkanir launa opinberra starfsmanna í það og það skiptið o.s.frv. Það er alltaf hægt að setja peninga í einhver verkefni og þau eru yfirleitt góð og gegn.

Þetta frumvarp felur í sér að staðgreiðsla manna mun hækka um 1% á örskömmum tíma, það er mín spá. Það þýðir að meðalmaðurinn í ASÍ, sem er með 300 þús. kr. á mánuði fyrir harða og mikla vinnu, og kona hans munu borga 6 þús. kr. meira á mánuði í skatta. Auðvitað fáum við eitthvað af þessu til baka í aukinni þjónustu en það þarf þó ekki endilega að vera. Feikidýr íþróttamannvirki gefa yfirleitt ekki af sér meiri þjónustu.

Svo hafa sveitarfélögin auk þess farið í einkaframkvæmd og þannig dulið skuldbindingu á komandi kynslóðir, á börnin okkar. Þau hafa með þeim hætti búið til skuldbindingu sem börnin okkar munu þurfa að borga. Það er mjög miður að eftirlitsnefnd með sveitarfélögum skuli ekki hafa tekið á þessum vanda og spurt hreinlega: Hvað gerist ef þið viljið hætta þessu, ef þið viljið hætta að leigja þetta íþróttamannvirki, hvað gerist þá? Getur næsta sveitarstjórn hætt þessu?

Margir borgarar telja að búið sé að spenna bogann til hins ýtrasta í skattlagningu. Umræðan hefur verið dálítið undarleg núna undanfarið því að menn eru ýmist að tala um skattalækkun eða skattahækkun eftir því hvernig þeir líta á málið, en ég ætla nú ekki að fara út í það.

En ég ætla í sambandi við þetta frumvarp, af því að mér finnst það athyglisvert, að stinga upp á eftirfarandi hugmynd sem gæti tengst þessu. Hún er sú að sérhverri sveitarstjórn sé árlega skylt að leggja fram tvær fjárhagsáætlanir, annars vegar með miklum framkvæmdum, miklum hækkunum launa og háu útsvari o.s.frv. og hins vegar með minni framkvæmdum og minni hækkunum launa og a.m.k. 1% lægra útsvari. Borgararnir geti svo kosið hvort þeir vilja. Þá yrði sveitarstjórnunum veitt raunverulegt aðhald og þær yrðu að fara að sýna hagkvæmni og ráðdeildarsemi í rekstri, nákvæmlega eins og borgarinn sjálfur verður að gera heima hjá sér, nákvæmlega eins og hann verður að gera til þess að geta borgað þessa miklu skatta.

Ég reikna með því að flutningsmenn þessa frumvarps vilji náttúrlega bara sjá enn meiri samneyslu og enn meiri skatta. Ég veit nú ekki alveg hvar mörkin liggja hjá þeim, hvort þeir vilja taka hverja einustu krónu úr vasa launþegans og láta hann fá hana aftur í formi bóta og réttinda, eða hvar þeir mundu vilja stoppa. En mér sýnist að þeir vilji alltaf fá meiri og meiri skatta og seilast dýpra og dýpra ofan í vasa skattgreiðenda.