133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

slysavarnir aldraðra.

269. mál
[12:59]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Byltur og brot valda einstaklingum óþægindum og heilsutjóni og er kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið. Þess vegna ber okkur að stuðla að því að fyrirbyggja slík óþægindi og það er hægt að gera. Enn og aftur kem ég að því að efla þarf heilsugæsluna og ekki bara í orðum heldur þarf fjármagn til að fjölga starfsmönnum og að markviss þjónusta verði innan heilsugæslunnar að veita öldrunarþjónustu, heimsóknir miðað við ákveðinn aldur og í heimsóknunum sé farið yfir heimilisaðstæður, hvar megi draga úr slysaþáttum og ef þarf komi iðjuþjálfar þar inn líka. Þetta þarf að vinna með félagsþjónustu sveitarfélaganna því það er einstaklingurinn, sveitarfélögin og hugsanlega Tryggingastofnun sem þurfa að koma að með hjálpartæki.

Einnig vil ég benda á mikilvægi þess að skipulag í sveitarfélögum og bæjum sé með þeim hætti að aðgengi aldraðra og fatlaðra sé til sóma.