133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Norræni blaðamannaskólinn.

577. mál
[14:27]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það. Ég held að hæstv. ráðherra hafi hlaupið mjög á sig í þessu máli og þetta sé hið vandræðalegasta mál fyrir ráðherrann. Það eru engin rök fyrir því hefðarrofi sem hér hefur átt sér stað við skipan og tilnefningar í sérfræðingaráð Norræna blaðamannaskólans. Það var sjálfsagt að hafa í heiðri tilnefningar Blaðamannafélags Íslands og halda þeirri hefð sem sköpuð hefur verið í þessu máli. Ég held að hæstv. ráðherra hafi gert mistök og langeinfaldasta leiðin út úr þeim fyrir hæstv. ráðherra væri að biðjast velvirðingar á þeim mistökum og gefa það út að framvegis verði unnið með öðrum hætti og þeim sem hefð og venja segja til um að gert hafi verið. Það hefði verið langheppilegast. Ráðherrann hefði átt að velja leið friðar í stað ófriðar í þessu máli eins og reyndar svo mörgum öðrum en ekki síst hér þar sem um er að ræða tilnefningar sem alltaf eru pólitískt viðkvæm mál þótt enginn dragi í efa hæfi þeirra sem skipaðir voru í ráðið.