135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

fangelsi og höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

412. mál
[14:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að búið er að lækka fjárveitingar til uppbyggingar í fangelsismálum hjá okkur. Sá fjárlagaliður er 8 millj. kr. í fjárlögunum og lækkar um 170 millj. kr. frá síðustu fjárlögum. Það er hins vegar opnað á það að ríkið selji Litla- og Stóra-Hraun og það hafa verið samningaviðræður í rúmt ár um það mál. Ágætt væri að heyra hvort hæstv. dómsmálaráðherra getur upplýst okkur um hvort samningar hafi tekist þannig að það komi inn fjármagn til að fara í uppbyggingu á Litla-Hrauni þó að maður viti að sú fjárveiting mundi samt ekki duga þótt það land yrði selt. Yfirvöld hafa stefnt að því lengi að byggja upp stórt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, svokallaður fjórði áfangi í áætlun. Það yrðu 64 rými á höfuðborgarsvæðinu en Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Fangelsismálastofnunar, skrifaði um það ágæta grein fyrir síðustu jól. Það hefur líka komið fram að samkeppni hefur verið á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að fá innan sinna sveitarfélagamarka nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar eftir að lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu voru sameinuð.

Það hefur líka komið fram, virðulegur forseti, að ríkinu standi til boða lóð í Hafnarfirði undir nýtt fangelsi og höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt í þinginu varðandi áætlun sem var rædd á fyrri stigum um að reist yrði stórt fangelsi á lóð á Hólmsheiðarsvæðinu að sú áætlun væri í uppnámi af hálfu skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar og það hafi komið dómsmálaráðuneytinu í opna skjöldu. Við þá umræðu opnaði hæstv. ráðherra á að skoða til hlítar hvort unnt væri að sameina byggingu lögreglustöðvar og byggingu fangelsisins eða að byggja eina byggingu og hefur verið upplýst að það vanti lóð og að verið sé að leita að henni.

Fyrir um ári síðan sendir aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesens, Böðvar Jónsson, bréf til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og falast eftir lóð fyrir höfuðstöðvar lögreglunnar. Það kemur fram í fjölmiðlum núna í lok febrúar að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segist ekki hafa fengið nein svör varðandi það að Hafnarfjörður væri búinn að bjóða lóð í Hellnahrauni fyrir slíkar höfuðstöðvar og fangelsi sem yrði þá væntanlega aðeins minna en upphaflega var áætlað. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort svara sé að vænta varðandi þessa lóð og hvernig þessi mál standi yfirleitt.