136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

Varnarmálastofnun og loftrýmiseftirlit.

[11:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að færa nýrri ríkisstjórn árnaðaróskir. Ekki mun henni veita af í þeim erfiðu verkefnum sem fram undan eru. Ég verð þó að segja að fyrstu skrefin hræða, óeiningin sem er í hópnum um mikilvæg málefni er ekki mjög uppörvandi.

Það var í valdatíð Samfylkingarinnar í utanríkisráðuneytinu á síðasta ári sem ný stofnun var sett á laggirnar, Varnarmálastofnun. Til hennar er ætlað á fjárlögum þessa árs eitthvað á annan milljarð. Við lestur á mjög rýrri verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar er ekkert minnst á þetta mál og hvert þar eigi að stefna. En þetta er klárlega eitt af þeim málum þar sem skoðanir stjórnarflokkanna hafa ekki farið saman, fram að þessu í það minnsta.

Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort einhverjar breytingar séu fyrirhugaðar frá því sem áður er upp lagt með Varnarmálastofnun. Eins langar mig að spyrja hann hvernig staðan er gagnvart svokölluðu loftrýmiseftirliti, en í tíð síðustu ríkisstjórnar og í tíð Samfylkingar í utanríkisráðuneytinu var farið af stað með svokallað loftrýmiseftirlit í samvinnu við NATO og NATO-þjóðir. Seint á síðasta ári var tekin ákvörðun um að afþakka komu Breta hingað til að stunda æfingar í loftrýmiseftirliti í desember. Í síðustu viku kom fram að Danir eru væntanlegir hingað í næsta mánuði. Nú langar mig að spyrja hvort norrænt samstarf hafi einhver áhrif á þetta. Hvort Dönum verður sagt að sitja heima eða (Forseti hringir.) hver stefna núverandi ríkisstjórnar er í þessum málum?