136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er nú bara að verða skemmtilegt. Ég veit ekki hvort það hjálpar málinu mikið eða hvað hv. þm. Pétur Blöndal mundi segja um þessar umræður gagnvart bráðavanda heimilanna. Ég ætla í virðingarskyni við hv. þm. Pétur Blöndal ekki að framlengja mál mitt um umræður um málefnalegt framlag mitt til umræðna hér á þinginu eða annars staðar.

Ég vil hins vegar forða hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur frá þeim misskilningi að ég standi gegn frumvarpi þeirra sjálfstæðismanna. Það er ekki svo. Ég fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loksins, eftir þessi sextán ár, fimmtán og hálft ár, komist að þeirri niðurstöðu að Neytendasamtökin, verkalýðshreyfingin í landinu, Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn hafi rétt fyrir sér í því að skynsamlegt sé að hafa hérna það kerfi greiðsluaðlögunar sem fyrir hendi er í öllum hinum norrænu ríkjunum þótt með mismunandi hætti sé.

Við stöndum ósköp einfaldlega frammi fyrir því, og það skiptir kannski litlu máli þegar til stykkisins kemur af hverju það er, að fyrir liggja þrjú frumvörp um sama málið. Eitt flytur Framsóknarflokkurinn og ég viðurkenni að ég hef ekki litið þannig á það þannig að ég viti hver munurinn er á því og t.d. frumvörpum Jóhönnu Sigurðardóttur sem ég nefndi áðan, sem hún flutti sex sinnum og breyttust reyndar í meðförum — eða hinu upprunalega frumvarpi Framsóknarflokksins.

Ég tek fullt mark á Birni Bjarnasyni með það að hin tvö frumvörpin kunni að vera betri en það frumvarp og held raunar að svo sé vegna þess að þau hafa verið betur unnin og frumvarp Framsóknarflokksins er nú fyrst og fremst sett til þrýstings á málið. En það frumvarp sem við erum auðvitað fyrst og fremst að ræða er frumvarp dómsmálaráðherra. Það er engin vanvirða við einstaka þingmenn að telja að svo sé, það er stjórnarfrumvarpið í málinu og ég styð það stjórnarfrumvarp sem hluti af stjórnarliðinu hér á þingi. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort ég á að tala lengur hérna en þetta er það eina sem ég get um það sagt núna.