136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara hér í almennar málfundaumræður um stjórnmál við hv. þm. Pétur Blöndal. Ég leyfði mér að vitna til þess að þessi ríkisstjórn er mynduð við afskaplega erfiðar aðstæður sem Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á eftir stjórnarsetu hér í hartnær 18 ár. Hún er mynduð við erfiðar aðstæður til þess fyrst og fremst að grípa til mjög brýnna aðgerða til að bjarga heimilum, einstaklingum og atvinnulífi frá frekari hörmungum. Það frumvarp sem við hér ræðum er liður í því, fyrsta skrefið.

Ég leyfði mér, hv. þingmaður, að vitna til annarra úrræða sem boðuð eru bæði í málaskrá ríkisstjórnarinnar og í verkefnaskránni. Ég mun ekki skorast undan því að ræða hér Bakka, hvalveiðar eða Icesave við hv. þm. Pétur Blöndal en tel að við þurfum að ræða hér brýnni mál og koma þessu frumvarpi til nefndar þannig að hægt sé að ljúka því.

Hv. þingmaður spurði af hverju ný ríkisstjórn hefði ekki lagt fram það frumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram. Því er til að svara, (Gripið fram í.) hv. þingmaður, að það frumvarp sem ríkisstjórnin hér leggur fram er víðtækara en það frumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram. Það kann auðvitað líka að vera og þætti kannski sjálfsögð kurteisi einhvers staðar að menn hafi viljað virða höfundarrétt fráfarandi dómsmálaráðherra á því skjali sem hans þingflokkur hafði samþykkt en ekki þingflokkur hins stjórnarflokksins. Það kann að vera að menn hafi viljað virða þann (Forseti hringir.) höfundarrétt að því leyti að leggja það ekki óbreytt fram. (Forseti hringir.) Ég bara velti því fyrir mér.