136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með jómfrúrræðuna og það brýna mál sem hún mælti fyrir í dag. Þetta er stór dagur fyrir alla þá sem barist hafa fyrir löggjöf af þessum toga árum saman og vel á annan áratug.

Hv. þm. Mörður Árnason rakti ágætlega áðan hvernig þingmenn jafnaðarmanna, Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands hafa haft forgöngu um að búið verði til frumvarp til laga um það efni sem hér er rætt, þ.e. greiðsluaðlögun.

Í þessari umræðu hefur hins vegar verið flögrað nokkuð úr einu í annað með þeim leikjum sem sjálfstæðismenn hafa kosið að leika hér með því að hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra og núverandi hv. þm. Björn Bjarnason tók þetta frumvarp með sér út úr dómsmálaráðuneytinu og ákvað að demba því eins og það stóð þá inn í þingið sem þingmannafrumvarpi í því skyni að reyna að skreyta sig með stolnum fjöðrum.

Það liggur ljóst fyrir að það frumvarp sem hér er lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar er samstofna því frumvarpi sem sjálfstæðismenn leggja fram af einni ástæðu og hún er sú að þetta frumvarp byggir á langri vinnu á vettvangi ríkisstjórnarinnar á undanförnum mánuðum og missirum.

Sú ástæða sem liggur að baki því að hér er lagt fram frumvarp á vegum nýrrar ríkisstjórnar er einfaldlega sú að frumvarpið eins og það lá í höndum hv. þm. Björns Bjarnasonar var ekki nægilega víðtækt og eru gerðar tvær mikilvægar breytingar þar á. Önnur breytingin lýtur að því að skapa skýrar lagaheimildir fyrir því að veðskuldir geti fallið undir andlag þessarar löggjafar. Það er mikilvægt enda skortir lagaheimildir til þess í tilviki ríkisbankanna og jafnvel í tilviki Íbúðalánasjóðs. Það er engin ástæða til að undanskilja veðskuldir þessum úrræðum við þær aðstæður sem við búum við í íslensku samfélagi í dag þar sem við horfum á mjög verulegan samdrátt á fasteignamarkaði og verðfall þar.

Í annan stað er gert ráð fyrir því að úrræðin verði ekki bundin við þá sem hafa verið launþegar heldur líka þá sem kunna að hafa haft atvinnurekstur í eigin nafni eða á vegum einkahlutafélags. Og andstaða Sjálfstæðisflokksins við það er mér satt að segja algerlega óskiljanleg og hún skýrist ekkert frekar við að hlusta á þann ósamstæða málflutning sem hér kemur fram, annars vegar frá hv. þm. Pétri Blöndal sem vill víkka þetta út til svo að segja allra sem hafa verið í atvinnurekstri, og hins vegar frá hv. þm. Birni Bjarnasyni sem vill engu breyta frá frumvarpi sjálfstæðismanna í þá veru að þetta eigi bara að taka til launþega.

Það er erfitt að átta sig á málflutningi sjálfstæðismanna í þessu efni því þar rekur sig hvað á annars horn. Við verðum einfaldlega í löggjöf af þessum toga að taka tillit til þeirra staðreyndar að þúsundir og jafnvel tugir þúsunda manna hafa framfæri sitt af sjálfstæðum rekstri ýmist í eigin nafni eða í nafni einkahlutafélags. Það fólk er í sjálfu sér launþegar í þeim skilningi að það hefur ekki með höndum umtalsverðan rekstur og er ekki með aðra á launaskrá en eiganda fyrirtækisins einan.

Einyrkjarekstur af þessum toga í einkahlutafélögum sérstaklega er bein afleiðing af breytingum sem þáverandi ríkisstjórn stóð fyrir á skattalögum og hlutafélagalögum upp úr aldamótum. Er algerlega óskiljanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki axla ábyrgð af þeim breytingum sínum í dag og játa því fólki sem hefur verið með sinn rekstur í einkahlutafélögum eða á sinn eigin reikning sömu möguleika í þessum efnum og öðrum. Það er ekki þar með sagt að það eigi að fara að teygja þessa heimild út yfir almennar rekstrarskuldir heldur er þvert á móti tekið skýrt fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að þetta eigi eftir sem áður að vera bundið við persónulegar skuldir viðkomandi aðila.

Hv. þm. Björn Bjarnason talaði af nokkrum belgingi hér fyrr í dag og sagði eitthvað á þá leið að aðkoma hans að þessu máli hefði verið nauðsynleg forsenda þess að þetta mál hefði komið fram því að það hefði verið á miklum villigötum vegna þess að það hefði fyrst komið inn í ríkisstjórn á vegum viðskiptaráðherra þar sem hann lagði fram frumvarp sem unnið var af nefnd sem fyrri viðskiptaráðherra hafði skipað. Það er ágætt að rifja upp hvers vegna málið var á þessum villigötum. Málið var á þessum villigötum, ef villigötur skyldi kalla, vegna þess að hv. þm. Björn Bjarnason sem dómsmálaráðherra hirti aldrei um að sinna þessu máli. Hann hafði engan áhuga á málinu þegar hv. þm. þáverandi og núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði þetta mál fram í formi breytingartillögu á lögum um gjaldþrotaskipti haustið 2003, haustið 2004, haustið 2005 og haustið 2006, allan þann tíma sem hv. þm. Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra. Alltaf var frumvarpið lagt fram í þeim búningi sem hann segir núna að sé nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að samþykkja það, þ.e. sem frumvarp til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti. Og aldrei hirti hann um að sinna því að það fengi framgang og aldrei kom það til afgreiðslu sem þingmannamál á hinu háa Alþingi.

Það var hins vegar nauðvörn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að leita eftir því hvort það gæti verið að finna bandamenn annars staðar í þáverandi ríkisstjórn í ljósi þess að hv. þm. Björn Bjarnason daufheyrðist við kröfum um að koma þessu þjóðþrifamáli áfram. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fékk þá ágætu hugmynd að beina fyrirspurn um það efni til hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra. (BBj: Hvað með hlut Alþingis að samþykkja frumvarp … fyrir þingið?) Þá beinir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir … (BBj: Er það framkvæmdarvaldið sem …?) Hvar var áhugi hæstv. dómsmálaráðherra á þeim tíma? (BBj: Af hverju afgreiddi ekki þingið frumvarpið?) Hvar var áhuginn sem hv. þm. Björn Bjarnason segist hafa á þessu (Gripið fram í.) máli í dag? Hvar var áhuginn á þessum tíma?

(Forseti (ÞBack): Forseti óskar eftir því að þingmaðurinn fái að halda sína ræðu og það séu ekki frammíköll með þessum hætti.)

Ekkert skýrir betur en vanstilling hv. þm. Björns Bjarnasonar núna hversu mjög hér er um stolnar fjaðrir að ræða og hversu mikið sjálfstæðismenn reyna að eigna sér verk sem aðrir hafa unnið og lagt höfuðáherslu á.

Eins og ég var að rekja var það nauðvörn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til að reyna að koma málinu áfram vegna þess að hv. þm. Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, sinnti því í engu og hafði engan áhuga á því, að beina fyrirspurn til hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Jóns Sigurðssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, og inna hann eftir því hvort hann gæti hugsað sér að hlutast til um að reyna að koma frumvarpi af þessum toga og lagaúrræðum af þessum toga í lög vegna þess að þáverandi þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sinnti því ekki eða hafði ekki áhuga á þessu máli. Eins og hv. þm. Björn Bjarnason benti á í frammíkalli sínu áðan hafði þingmeirihlutinn sem Sjálfstæðisflokkurinn var í forsvari fyrir ekki áhuga á að koma þessu máli í gegn og það var greinilega ekki forgangsverkefni forseta þingsins á þeim tíma að sjá til þess að þingmannamál af þessum toga yrðu rædd eða afgreidd.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beinir því þeirri fyrirspurn til Jóns Sigurðssonar, hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, hvort hann geti séð ástæðu til að setja ákvæði af þessum toga í lög. Í svari hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Jóns Sigurðssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, kemur fram að hann sé reiðubúinn til að beita sér fyrir því að skipuð verði nefnd sem meti reynsluna frá öðrum norrænum ríkjum af þeirri löggjöf sem þeir hafa um greiðsluaðlögun. Við slíkt starf beri að hafa í huga að mikilvægt kunni að vera að úrræði um greiðsluaðlögun séu fyrir hendi hér á landi sem unnt yrði að nota svo skuldari komist út úr skuldafeni og geti haldið áfram með líf sitt og fjölskyldu sinnar þegar sérstök og ströng skilyrði eru fyrir hendi, svo sem að samrýmast reglum um fullnusturéttarfar hér á landi.

Í framhaldi af þessu svari þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra skipaði hann nefnd sem skilaði svo af sér því frumvarpi sem hv. þm. Björn Bjarnason gaf þá einkunn að hefði verið rangur farvegur og óeðlilegur framgangsmáti. Ég held að þessi söguskýring, þó að hún fari mjög í taugarnar á hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sé afskaplega mikilvæg og algerlega nauðsynleg til að menn átti sig á samhengi málsins.

Það liggur sem sagt fyrir að dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, sem reynir núna að ríða fram á völlinn sem riddari réttlætisins í þessu máli, hafði engan áhuga á málinu, sinnti því í engu sem dómsmálaráðherra jafnvel þó að það væri lagt fram í nákvæmlega því formi sem hann taldi áðan að væri grundvallarforsenda til þess að hægt væri að ræða það. Þegar síðan aðrir hafa frumkvæði að því og verða við ákallinu — og vil ég þá sérstaklega hrósa hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, þeim ágætismanni Jóni Sigurðssyni, þáverandi formanni Framsóknarflokksins, þegar hann bregst við því kalli og setur á fót nefnd og sú nefnd skilar af sér — þá þrengist auðvitað um útgönguleiðir hv. þm. Björns Bjarnasonar og hann þarf nauðbeygður að vinna að þessu máli, sem hann gerði í stjórnarsamstarfi við okkur, og niðurstaðan liggur fyrir í því þingmannafrumvarpi sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram.

Virðulegi forseti. Málið fer nú og öll þessi þrjú mál til allsherjarnefndar. Það er mikilvægt að við förum vel yfir þetta mál þar en þó er málið orðið það þaulunnið og það hefur velkst svo lengi í kerfinu að mér er stórlega til efs að helstu sjónarmið hafi ekki komið fram í þeirri vinnu. Ég þykist þess fullviss og ég ætla ekki að gera ágreining um það að það var mjög gott að fá aðkomu réttarfarsnefndar að málinu og hún var mikilvæg. Ég tel einnig að sú mikla áhersla sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt á þetta mál á undanförnum árum — og vil ég þá sérstaklega nefna þar aðallögfræðing þess, Magnús Norðdahl — hafi skilað sér í þessu verki öllu.

Ég tel mikilvægt að við vinnum þetta mál hratt á vettvangi allsherjarnefndar og vænti góðrar samstöðu um það við stjórnarandstöðuna, sérstaklega í ljósi þess að hún hefur nú loksins tileinkað sér þá orðræðu að mikilvægt sé að sett séu lög um greiðsluaðlögun á Íslandi. Það út af fyrir sig er fagnaðarefni.