136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í andsvarinu staðfesti hv. þm. Björn Bjarnason allt sem ég var að segja. Með öðrum orðum: Hjá honum var aldrei vilji sem dómsmálaráðherra að setja efnisreglur af þeim toga sem hér er um að ræða. Þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram frumvarp með þeim úrræðum og í því formi sem hún sem stjórnarandstöðuþingmaður taldi eðlilegt. Ef hv. þm. Björn Bjarnason taldi á þeim tíma einhverja ástæðu til að fella þessi ákvæði í annan búning en koma þeim samt sem áður í gegn hefði hann haft um það forgöngu sem dómsmálaráðherra. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Hann hreyfði þessu máli aldrei, hafði aldrei að því frumkvæði á nokkurn hátt og sýndi því engan áhuga, ekki fyrr en honum er þröngvað til þess þegar fram kemur fullbúið frumvarp af hendi viðskiptaráðherra sem verður til vegna þess að hann sýnir áhuga á þessu máli.

Virðulegi forseti. Að reyna síðan að halda því fram að frumvarp sem unnið er á vettvangi dómsmálaráðuneytisins í samvinnu ríkisstjórnarflokka með aðkomu tveggja annarra ráðuneyta hins stjórnarflokksins sé mál sem sé komið í búning af Sjálfstæðisflokknum er nú eitthvert svakalegasta dæmið um þann innantóma gorgeir sem einkennir þann mikla valdaflokk sem situr hér og engist á stjórnarandstöðubekkjum. Það er nú ósköp einfaldlega þannig að ef þetta mál er í betri búningi en það var áður er það vegna þess að það fór í ákveðinn farveg sem ég er alls ekki ósammála sem er ákveðinn lögbundinn farvegur með aðkomu réttarfarsnefndar vegna þess að hér er um (Gripið fram í.) breytingarferli að ræða á lögum um gjaldþrotaskipti. (Gripið fram í.) Það er mjög jákvæður farvegur. Ég hef tekið það skýrt fram að ég var aldrei ósammála þeirri ákvörðun þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra að fella málið í þann farveg. En að eigna Sjálfstæðisflokknum réttarfarsnefnd þá er nú skörin farin að færast nokkuð upp í bekkinn.