138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

grein í Vox EU.

[13:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fulltrúi forsætisráðherra í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands skrifaði hreint dæmalausa grein á vefritið Vox EU sem útleggst á íslensku „Rödd Evrópusambandsins“. Það er vefrit um fjármál sem lesið er af embættismönnum í Brussel og ekki hvað síst starfsmönnum ráðuneyta í Bretlandi. Þessi grein gengur út á það eitt að reyna að sýna fram á að Ísland sé ekki of lítið til að standa straum af greiðslu allra þeirra krafna sem Bretar og Hollendingar hafa farið fram með. Síðast lét þessi kona í sér heyra þegar hún skrifaði grein um að Ísland væri raunar of lítið til að vera sjálfstætt. Núna útlistaði hún það sem svo að það sé þó ekki of lítið til að borga allar kröfur Breta og Hollendinga. Tímasetning greinarinnar er náttúrlega með stökustu ólíkindum og afar skaðleg á þeim viðkvæma tíma sem við erum stödd núna í viðræðum Breta og Hollendinga. Maður hlýtur að velta fyrir sér hver tilgangurinn sé.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem afar óheppilegar upplýsingar koma frá ráðherrum eða fulltrúum þeirra einmitt þegar við erum á erfiðum eða viðkvæmum stað í viðræðum um Icesave-samningana. Það er vert að leggja áherslu á að þessi grein gengur ekkert út á að útskýra að Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða eða hafa af því einhvern hag. Nei, hún gengur eingöngu út á að hægt sé að kreista út úr Íslendingum allt það sem Bretar og Hollendingar krefjast. Þessi kona er á launum hjá íslenskum skattgreiðendum við að gæta hagsmuna okkar en þó sérstaklega að verja gengi krónunnar. Og ekkert er jafnskaðlegt gengi krónunnar og umframskuldsetning í erlendri mynt. Þegar allt leggst á eitt hlýtur það að vekja undrun, hneykslan og reiði hæstv. forsætisráðherra og ég spyr hvort ekki sé alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra muni víkja þessari konu úr peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.