138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar höfum flutt frávísunartillögu vegna þessa máls. Þetta mál er að okkar mati algjörlega vanbúið og stefnir aukinheldur í ranga átt. Það er enginn vafi á því að þetta frumvarp mun valda sjávarútveginum miklum skaða einmitt þegar hann þarf á að halda stöðugleika og vissu um framtíðina. Þetta frumvarp gerir rekstrarskilyrði sjávarútvegsins verri jafnframt því að vera ávísun á óábyrgar veiðar, sem er athyglisvert af hálfu ráðherra úr hópi Vinstri grænna, og stórskaðar það markaðsstarf sem unnið hefur verið.

Hagsmunasamtök sjómanna öll, Alþýðusamband Íslands og Landssamband íslenskra útvegsmanna hafa hvatt til þess að þetta frumvarp verði kallað til baka, því verði vísað frá. Við erum sammála því og leggjum þess vegna til að Alþingi samþykki að vísa málinu frá og taki fyrir næsta mál á dagskrá.