138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[19:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er eins og hæstv. ráðherra sagði nátengt því frumvarpi sem við höfum nú rætt lengi dags og í raun og veru afsprengi þess. Fyrra frumvarpið er forsenda þess að þetta er lagt fram. Það sem í fyrsta lagi þarf að velta fyrir sér er það að hér er talað um 50.000 kr. í svokallað strandveiðigjald sem hver sá sem fær leyfi til strandveiða á að greiða. Nú getum við áætlað að bátarnir verði ekki færri en 600, leyfi sem voru gefin út á síðasta fiskveiðiári voru tæplega 600 og ekkert bendir til annars en að sóknin í þetta kerfi muni frekar aukast en hitt. Bæði er það svo að aflaheimildirnar sem eru útgefnar, eru auknar um 50%, sem hlýtur auðvitað að leiða til þess að fleiri sjá sér hag í því að fara inn í þetta kerfi.

Í niðurstöðu Háskólaseturs Vestfjarða hefur komið fram að þeir sem hafa stundað þessar veiðar eru býsna ánægðir með þær. Þeir eru auðvitað ánægðir vegna þess að þetta kerfi gefur mönnum möguleika á því að verða sér úti um viðbótartekjur. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að tekjur á þessa báta voru að meðaltali á bilinu ein til tvær milljónir, misjafnt eftir svæðum. Þess vegna er augljóst að þegar við erum hér með fiskveiðistjórnarkerfi þar sem er eins konar einstefnuloki, menn komast inn í það og hafa þann möguleika að fá aukinn fiskveiðirétt án þess að greiða fyrir hann með nokkrum hætti, þá eru auðvitað allar líkur á því að þeim bátum sem nýta sér þessa möguleika fjölgi frekar en hitt. Þannig að varlega áætlað hljótum við að ætla að ekki færri en 600 bátar verði sér úti um þetta strandveiðileyfi. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir hvern bát sé 50 þús. kr. og ef ég kann margföldunartöfluna rétt eru það um 30 millj. kr. sem að mati hæstv. ráðherra og ráðuneytisins eru væntanlega sá umsýslukostnaður sem hafnir landsins þurfa að leggja sérstaklega út fyrir vegna strandveiðikerfisins. 30 millj. kr. sem hafnirnar fá til að standa undir þeim kostnaði sem af strandveiðunum hlýst.

Fyrsta spurningin og sú mikilvægasta — nú vil ég gjarnan að hæstv. ráðherra sé hér — er einfaldlega þessi: Ber að líta á þetta sem þjónustugjald eða skatt? Hvernig eru 50 þús. krónurnar fundnar? Hefur farið fram einhver útreikningur á því að þessar 50 þús. kr. séu til þess að standa straum af sannanlegum kostnaði hafnanna? Það er augljóst að þeir sem um eiga að véla og þurfa að greiða þetta gjald hljóta að kalla eftir því hvort verið sé að leggja á þá sérstakan nýjan skatt, strandveiðigjald, eða hvort um sé að ræða eðlilegt gjald fyrir þá þjónustu sem hafnirnar veita þeim bátum sem stunda strandveiðar.

Ég er ekki að andmæla því að hafnirnar séu fjármagnaðar með þjónustugjöldum. Hafnirnar verða auðvitað að hafa sína tekjustofna. Auðvitað er kostnaður af allri útgerð og löndunum á afla og öðru sem því fylgir. Það er mér manna best ljóst. Hafnirnar hafa flestar ekki talið sig ofsælar af aflagjöldunum, en hér er sem sagt verið að setja upp nýja gjaldskrá, nýjan taxta, sem mér er ekki ljóst af lestri þessa frumvarps hvort beri að skilja sem þjónustugjald eða skatt. Gleymum því ekki að það er gríðarlega mikilvægt að menn geri greinarmun þar á, þjónustugjald á að standa straum af sannanlegum kostnaði við þjónustu, hitt er skattur. Skatt verða menn að leggja á með lögum, eins og hér er verið að gera, og ef ástæða er til að gera breytingar á þessu þyrfti að gera það með lögum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að það sé algjörlega á hreinu hvort við erum að leggja á almennan skatt fyrir hafnirnar eða hvort um er að ræða þjónustugjald sem, eins og ég sagði, ég er út af fyrir sig ekki að gera athugasemd við.

Af því að hæstv. ráðherra fór síðan pínulitla fjallabaksleið að því að svara annarri af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann í öðru máli sem við ræddum hér áðan, þá hlýt ég að fara hina sömu fjallabaksleið að því að víkja að svari hæstv. ráðherra. Ég vísaði hér til þess að í 6. tölulið frumvarpsgreinarinnar sem við ræddum áðan er kveðið á um að skylt sé að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar. Punktur. Í gildandi lögum segir hins vegar, með leyfi forseta:

„... skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi.“

Á þessu er allmikill munur. Í gildandi lögum er sem sagt gert ráð fyrir því að menn verði að landa eftir lok hverrar veiðiferðar, það gefur augaleið, og að sá afli skuli síðan vigtaður á Íslandi. Ef um er að ræða að menn vilji almennt flytja út afla til útlanda án þess að hann sé vigtaður hér á landi, þá borga menn það með 5% útflutningsálagi. Hér finnst mér greinilegt að fremur er verið að opna á möguleikana og auðvelda mönnum að flytja fiskinn út óunninn.

Ég sagði áðan að það hefði komið mér dálítið á óvart vegna þess að ég vissi að hæstv. ráðherra hefur verið mikill áhugamaður um það að torvelda það frekar og hann sagði hér áðan sjálfur að ekki væri ætlunin að liðka fyrir útflutningi á óunnum fiski og þess vegna kom mér þetta dálítið spánskt fyrir sjónir. Ég átta mig ekki á hvað hefur knúið hæstv. ráðherra til að gera þá breytingu á lögunum sem hann boðar með þessu frumvarpi og það var eiginlega það sem ég var að leita eftir, ekki að hann endurtæki meginsjónarmið sín, sem mér eru alveg kunn, að hann vill að sem mestur hluti og helst allur þessi afli fari til vinnslu hér innan lands, heldur hitt að eins og ég skil þennan texta þá er með honum frekar verið að taka stefnuna í hina áttina. Ég átta mig ekki á hvort hann telur sig bundinn af einhverri jafnræðisreglu eða einhverju slíku sem gerir það að verkum að hann hefur talið sig knúinn til að taka út síðari málsliðinn í þessari setningu í gildandi lögum og síðan seinni setninguna í þessum lögum.

Ef hæstv. ráðherra færi aðra fjallabaksleið og svaraði þessu, væri það ágætt, ella mun ég auðvitað ganga hart fram eftir því í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að þessu verði svarað.

Af því að við erum að ræða þetta tiltekna mál þá er aðalatriðið að við gerum okkur grein fyrir því undir hverju þessi 50 þúsund kall í strandveiðileyfi á að standa í kostnaði hafnanna, hvort um sé að ræða almenna skattlagningu fyrir hafnirnar eða það að búa til þjónustugjald til að standa undir tiltekinni, skilgreindri þjónustu sem hafnirnar verða að inna af hendi. Þá vek ég athygli á því að ef svo er, er umsýslukostnaður hafnanna í kringum þessar veiða metinn þannig af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að hann sé 30 millj. kr. sem er dálagleg upphæð.