139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er með sérstakri ánægju að ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2011–2014. Þetta er í fyrsta skipti sem slík tillaga er lögð fyrir Alþingi og ég geri það í samræmi við ákvæði laganna frá 2008 um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Markmið þeirra og þessarar skýrslu sem ég legg hér fyrir er ekki síst það að ná heildarsýn á þátttöku okkar í alþjóðlegu þróunarstarfi og sömuleiðis að gefa Alþingi Íslendinga færi á að koma að stefnumótun í þessu máli.

Tekist hefur góð samvinna millum þingsins og framkvæmdarvaldsins í þessum málaflokki á síðustu árum og ég vil hrósa þinginu og utanríkismálanefnd fyrir þann áhuga sem bæði hafa sýnt málaflokknum. Ég tel að það sé sérstaklega mikilvægt á þeim tímamótum sem við stöndum í þróunarsamvinnu að þingið verði virkt í stefnumótuninni og komi að því með afgerandi hætti að móta t.d. með hvaða hætti framlög eiga að þróast í framtíðinni.

Sú áætlun sem liggur hér fyrir fjallar um þátttöku okkar í fjölþjóðlegri þróunaraðstoð, tvíhliða samvinnu við einstök ríki, neyðaraðstoð, friðargæslu og hjálparstarfið. Áætlunin sem hér er undir er ákaflega skilmerkileg og ítarlega útfærð. Þar er fjallað rækilega um hvert einasta verkefni og sömuleiðis eru framkvæmdaáform tímasett. Í tillögunni má segja að grunnmarkmið Íslands með alþjóðlegri þróunarsamvinnu séu mjög vel afmörkuð. Meginmarkmiðið er vitaskuld að leggja hið íslenska lóð á vogarskálar í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. Með virkri þátttöku á þessu sviði leitast Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðilegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóða. Alþjóðleg þróunarsamvinna á að vera ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og á það er lögð áhersla í þessari þingsályktunartillögu. Þar er frá því greint að áherslan verði lögð á mannréttindi og jafnrétti kynjanna, frið og öryggi ásamt baráttu gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri. Sömuleiðis að leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála. Það er lagt til að íslensk þróunarsamvinna endurspegli þau gildi sem ég hygg að þingheimur allur sé almennt sammála um að íslenskt samfélag stendur fyrir, virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu.

Í ljósi þessa er lagt til að við útfærslu áætlunarinnar verði lögð áhersla á ábyrgð, að ráðvendni og gagnsæi verði haft að leiðarljósi í þróunarstarfi. Í öðru lagi á árangur, að allir þættir þróunarstarfsins, stjórnun, verklag og aðferðafræði verkefna, stuðli að því að árangur þróunarsamvinnu af okkar hálfu verði sem mestur. Í þriðja lagi á áreiðanleika, að landi og þjóð verði aflað virðingar á alþjóðavettvangi með því að vera faglegur og sömuleiðis traustur samstarfsaðili í þróunarstarfi.

Markmið Íslands í þróunarsamvinnu á að vera að styðja áætlanir um að útrýma fátækt á grunni sjálfbærrar þróunar og uppbyggingar á mannauði. Lögð verði sérstök áhersla á mannréttindi, jafnrétti, frið, öryggi og verkefni þar sem íslensk sérþekking og reynsla nýtist.

Frú forseti. Þetta eru hin breiðu gildi og hin breiðu markmið sem þessi áætlun byggist á og þau eru sett fram með hliðsjón af umræðunni sem hefur farið fram um þessa málaflokka í þann langa tíma sem Alþingi hefur unnið saman að því að byggja upp okkar starf á þessu sviði. Þetta er algerlega í anda þeirrar samstarfsyfirlýsingar sem núverandi ríkisstjórn lagði fram á sínum tíma. Ég held að um þessi breiðu markmið sé nokkuð þverpólitísk samstaða á Íslandi.

Auðvitað litast þessi áætlun af núverandi efnahagsþrengingum og þeirri staðreynd að við höfum ekki verið jafnaflögufær upp á síðkastið og á góðæristímum. Fjárlög ársins gera ráð fyrir tæplega 2,8 milljörðum kr. til þróunarmála sem eru um það bil 30% af heildarútgjöldum til utanríkismála. Þetta er giska há fjárhæð en hún er þó ekki nema rétt um 0,2% af vergum þjóðartekjum miðað við hagspár. Þeir sem hafa fylgst vel með þessum málum vita það líkast til að þegar best lét, á árunum 2008 og 2009, lögðum við 4,3 milljarða kr. til þróunarmála, samdrátturinn er því 35% í þessum samanburði en einstaka liðir í okkar þróunarstarfi hafa verið skornir miklu meira niður, sumir sem við höfum talið á umliðnum árum að væru gildur og snar þáttur í stefnu okkar á þessum sviðum niður um allt að 80% frá því sem var.

Frú forseti. Það eru 40 ár frá því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktaði að velmegandi þjóðir heims ættu að stefna að því að leggja 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum til þróunarmála. Síðan þá hefur þetta markmið verið margítrekað í alþjóðlegum ályktunum og yfirlýsingum, nú síðast í haust á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York. Í dag er það svo að það eru þrátt fyrir allt ekki nema fimm ríki sem uppfylla 0,7% markmiðið. Þrjú þeirra eru í hópi Norðurlandanna, Danmörk, Noregur og Svíþjóð. Finnland stefnir hraðbyri að því að standa við fyrri yfirlýsingar sínar um að ná 0,7% markmiðinu árið 2015. Það má segja að Íslendingar hafi tekið verulega á á síðasta áratug. Við vorum á prýðilegri leið með að stefna að þessum markmiðum þegar hrunið skall á okkur og þess vegna höfum við þurft að endurskoða fyrri áætlanir okkar.

Í þingsályktunartillögunni er í reynd gert ráð fyrir að Alþingi álykti um stuðning við það markmið að 0,7% markmiði Sameinuðu þjóðanna verði náð innan tíu ára. Á gildistíma áætlunarinnar er gert ráð fyrir hóflegri hækkun framlaga sem markast vitaskuld af forsendum í ríkisfjármálum en þar er þó jafnframt kveðið á um það að ef hagvöxtur verði meiri en spár gera ráð fyrir verði framlögin endurskoðuð og hækkun framlaga verði hraðað við endurskoðun áætlunarinnar árið 2013.

Frú forseti. Áherslusvið þessarar áætlunar eru auðlindamál, mannauður og störf að friðaruppbyggingu auk þess sem jafnréttismál og umhverfismál eru skilgreind sem þverlæg málefni. Á öllum þessum sviðum reynum við ávallt að horfa til þess að íslensk sérþekking og reynsla nýtist sem best til hagsbóta fyrir þróunarríkin. Á sviði auðlindamála beinum við kastljósinu að fiskimálum og gleymum ekki þeirri staðreynd að 1 milljarður manna byggir á fiski og hrámeti úr hafi sem uppistöðu próteinneyslu sinnar og sömuleiðis er kastljósi beint að nýtingu endurnýjanlegrar orku. Ég hef sjálfur eins og hv. þingmenn vita beitt mér fyrir því að orkuþörf þróunarríkja fái aukna athygli í alþjóðaþróunarstarfi. Orkan er forsenda arðbærs atvinnulífs og hún er ákaflega mikilvæg samfélagslegum umbótum eins og bættu heilsufari og aukinni menntun. Nýting jarðhita er okkur vitaskuld sérstaklega hugleikin en það vill svo til að það er græn orkulind sem er mjög víða vannýtt eða ónýtt í þeim ríkjum sem helst þurfa á umbótum að halda á því sviði. Það er líka rétt að rifja það upp að virkjun endurnýjanlegrar orku tengist með beinum hætti áherslunni á loftslagsmál en á því sviði mun Ísland þurfa að leggja meira af mörkum til að aðstoða þróunarríkin á komandi árum.

Sérstök landfræðileg áherslusvæði áætlunarinnar eru Malaví, Mósambík og Úganda þar sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands sinnir verkefnum. Sömuleiðis er lögð áhersla á friðaruppbyggingu í Afganistan og stuðning við málefni Palestínumanna með framlögum til verkefna alþjóðastofnana og störfum íslenskra sérfræðinga á þeirra vegum. Í marghliða starfi verður lögð áhersla á Alþjóðabankann, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hina nýju stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna „UN Women“ og að sjálfsögðu Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem við höfum tekið mjög virkan þátt í síðustu 30 ár. Neyðar- og mannúðaraðstoð skipar sömuleiðis veigamikinn sess með áherslu á störf frjálsra félagasamtaka, matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna og samræmingarskrifstofu samtakanna í mannúðarmálum.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í þróunarstarfi. Sem betur fer hefur íslenskum samtökum vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum. Þau sinna mjög öflugu fjáröflunarstarfi og þau eru mikilvægir málsvarar hjálparstarfs. Ég tel sjálfur að samstarf stjórnvalda og félagasamtaka hafi dafnað nokkuð vel og þessi áætlun gerir ráð fyrir því að það styrkist enn frekar, m.a. með tilkomu sérstaks fjárlagaliðar sem verður ætlaður verkefnum á þeirra vegum.

Ég vil sérstaklega í tengslum við það, frú forseti, þakka fulltrúum í þróunarsamvinnunefnd fyrir innlegg þeirra í þá vinnu sem hefur farið fram á síðustu mánuðum, og þakka þeim fyrir jákvæða umsögn sem fylgir áætluninni. Sömuleiðis vil ég þakka samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu fyrir þeirra störf en sá mikilvægi samráðsvettvangur hefur þegar sannað gildi sitt og ég vona að fulltrúar í ráðinu sjái þess merki í þeirri tillögu sem liggur hér fyrir í þinginu. Meðal annars komu úr þeim ranni óskir um sterkari áherslu á að lyft yrði frekar stöðu frjálsra félagasamtaka og það var gert í þessari áætlun þegar hún var að lokum lögð fram.

Frú forseti. Ég geri mér vonir um að við alþingismenn getum náð nokkuð góðri þverpólitískri samstöðu um þá áætlun sem hér liggur fyrir og legg til að þegar þessari umræðu sleppir verði málinu vísað til umfjöllunar hjá hv. utanríkismálanefnd.