140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

makríldeilan við ESB.

[13:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er alvarlegt mál. Í sjálfu sér var hin fræga ályktun Evrópuþingsins þar sem vikið er að þessu ekki afdráttarlaus og skiptir ekki sköpum í þessum efnum, en miklu alvarlegri eru yfirlýsingar írska sjávarútvegsráðherrans í viðtali við írska ríkisútvarpið þar sem hann fjallar um stöðu mála að afloknum fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins og upplýsir þar, sem við reyndar vissum eftir öðrum leiðum, að tillaga Breta og Íra um að flýta því ferli sem í gangi var hjá framkvæmdastjórninni, að undirbúa refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum, hafi verið samþykkt og því miður með stuðningi allmargra ríkja í viðbót. Það er alvarlegt í sjálfu sér en hitt er ekki síður alvarlegt að í sama viðtali upplýsir Coveney, og vísar til þess að til hafi staðið að opna sjávarútvegskaflann á næstu mánuðum, að Evrópusambandið geti ekki byrjað þær viðræður í góðri trú með makríldeiluna óleysta, eins og þar er eftir honum haft.

Ég hlýt að segja á móti að við getum væntanlega sagt hið sama, það er erfitt fyrir okkur að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið í góðri trú ef Evrópusambandið tekur þetta óskylda deilumál og dregur það inn í aðildarviðræðurnar og ætlast til undanlátssemi af okkar hálfu í gríðarlega stóru og miklu hagsmunamáli til þess eins að þeir fáist til að eiga við okkur viðræður um aðskilda kafla í ferlinu með eðlilegum hætti. Það eru ekki boðlegar aðstæður og hljóta að valda uppnámi í þeim viðræðum.

Varðandi hótunina sjálfa ber að aðgreina tvennt, annars vegar er ekkert við því að segja þó að Evrópusambandslönd eða önnur lönd í deilunni setji hafnbann á íslensk skip varðandi makríl, og það ber að gera ef slík deila er uppi, en að færa það yfir í viðskiptaþvinganir gagnvart framleiðsluvörum, svo ekki sé talað um óskyldar vörur, er að (Forseti hringir.) okkar dómi ólöglegt og brot á bæði EES-samningnum og reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þannig að að sjálfsögðu getum við ekki látið slíkt líðast.