140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sem meðflutningsmaður þessarar tillögu fagna því að sjá þá miklu samstöðu í þinginu um að samþykkja þetta mál. Ég tek undir þær breytingartillögur sem koma frá atvinnuveganefnd. Ég legg hins vegar mikla áherslu á það sem hér er verið að samþykkja, að við ætlum að ráðstafa tekjum sem jafngilda hækkun kolefnisgjalds til verkefna sem stuðla að orkuskiptum og orkusparnaði í samfélaginu. Það skiptir gífurlega miklu máli að við þetta verði staðið. Það er mikilvægt að hafa í huga að með því að tryggja að kolefnisgjaldið fari til slíkra verkefna stuðlum við að atvinnusköpun innan lands, við nýtum þá hreinu orku sem við getum búið til innan lands, við aukum sjálfbærni landsins og það er einmitt það sem við eigum að hafa í huga varðandi þetta verkefni.