143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort ekki væri hægt að endurtaka atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar þar sem staðreyndin er sú að þegar hingað er komið á fundinum hafa stjórnarflokkarnir ekki lengur meiri hluta á þingfundinum. Þriðjungur þeirra þingmanna sem hér ákváðu kvöldfund eru farnir af fundinum. (Gripið fram í: Þeir eru í húsi.) Nei, það eru aðeins 28 þingmenn í húsi. Trúlega er þingheimur ekki einu sinni ályktunarfær á þessari stundu. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi ástand þegar verið er að ræða það stóra álitamál sem uppi er. Sérstaklega er sárt að sjá ekki í húsi aðra ráðherra en Bjarna Benediktsson, sem við bíðum spennt eftir að sjá á mælendaskrá líka. En að hæstv. ráðherrar Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Kristján Þór Júlíusson skuli ekki vera komin hingað til fundarins kallar náttúrlega á það að við verðum í ræðustólnum að kalla á þá þar til þeir koma.