143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara inna hæstv. forseta eftir því hvort hann hygðist endurtaka atkvæðagreiðsluna um lengd kvöldfundar og einnig hvort gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að þeir ráðherrar sem skriðið hafa í felur verði dregnir fram úr fylgsnum sínum og látnir vera við umræðuna og hvattir til þess að taka þátt í henni. Það er út af fyrir sig skiljanlegt að þeir vilji það ógjarnan, en það er eðlilegt að forseti leggi að þeim og reyni að tryggja að þeir uppfylli starfsskyldur sínar með þeim hætti. Mér finnst það eðlilegt eftir þær umræður sem við höfum átt um fundarstjórn forseta að forseti upplýsi það hvernig hann hefur brugðist við athugasemdum þingmanna. Eins væri gott að vita fyrir skipulag starfanna hversu lengi forseti hefur í hyggju að halda fundinum áfram í kvöld, hvort það verði til kl. tíu eða ellefu eða hvort hann hyggist halda fundinum áfram alveg til miðnættis.