143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:39]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða fyrirspurn.

Ég hlýt að upplifa það þannig að það að loka á möguleika, hverjir sem þeir í raun og veru eru, minnki möguleika unga fólksins til langs tíma. Ungt fólk á framtíðina fyrir sér og því er mikilvægt að fyrir framan það séu eins margir möguleikar og hægt er.

Þingmaðurinn spurði ágætra spurninga um stöðu ungs fólks í Evrópu. Við vitum að í mörgum löndum Evrópu hefur verið mjög erfitt ástand. Þetta vantar vissulega, ég tek undir það, í skýrslu Hagfræðistofnunar. Það vantar marga pósta, félagslega o.s.frv., í skýrsluna. Við vitum að ástandið í löndum Evrópu er mjög misjafnt, en mörg þeirra eiga það sameiginlegt að aldurshópurinn 18–25 ára, það fer eftir því hvernig mælingar eru gerðar, stríðir við erfiðari aðstæður og hærra atvinnuleysi en almennt er. Í mjög mörgum löndum Evrópu, reyndar Norður-Ameríku líka, er atvinnuleysi þessa aldurshóps um það bil helmingi hærra en hjá öðrum. Þetta á þó ekki við um öll lönd. Í löndum Skandinavíu, og í Þýskalandi til dæmis, er atvinnuleysi þessa hóps ekki svo hátt. Það er að hluta til rakið til þess að menntakerfið í þeim löndum er tengdara atvinnulífinu. Við höfum hins vegar eftir hrun hér á Íslandi séð það sama trend, í raun í fyrsta skipti síðan mælingar hófust, með unga fólkið hér. Eftir hrun býr unga fólkið á Íslandi við miklu hærra atvinnuleysi en aðrir (Forseti hringir.) og því miður virðast möguleikarnir vera að lokast.