143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:50]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef orðið vör við það hjá sumum af samþingmönnum mínum, sérstaklega þeim sem koma af landsbyggðinni og eru ekki hlynntir því að við göngum í Evrópusambandið, þó að þeir séu sammála mér í því að ekki eigi að slíta viðræðunum heldur eigi að sjá samning, að þetta fólk segir gjarnan að það þekki af eigin raun vegna þess að það býr úti á landi hvað sé langt að sækja til Reykjavíkurvaldsins. Það sé svo langt að sækja peninga og áhrif og annað til Reykjavíkurvaldsins og þess vegna beri það kvíðboga fyrir því eða sjái hætturnar á því að valdið færist að svo miklu leyti til Brussel og yrði þess vegna enn lengra frá því en er nú.

Mig langar til að hv. þingmaður velti þessu aðeins fyrir sér, hvort hann telji að þessi hætta sé raunveruleg, kannski sérstaklega með tilliti til nálægðarreglunnar sem kölluð er sem gildir í Evrópusambandinu. Hún er um að færa eigi valdið eins nálægt fólkinu og mögulegt er. Það kemur reyndar fram í tillögum stjórnlagaráðs. Þegar það lagði til að atkvæði allra landsmanna vægju jafnt, færði það líka inn í stjórnarskrárdrögin nálægðarregluna, um að (Forseti hringir.) sveitarstjórnarstigið eða eitthvað stærra, kannski sameinað sveitarstjórnarstig, réði meiru en það ræður í dag. Aðeins smávangaveltur um þetta, virðulegi þingmaður.