143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Klukkan er orðin hálfellefu og umræddir ráðherrar hafa ekki látið sjá sig í þingsölum. Hæstv. innanríkisráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki á mælendaskrá að mér vitandi. Því óska ég eftir því að annaðhvort komi ráðherrar hingað og fari yfir þessi mál með okkur eða við slítum fundi í kvöld og hittumst aftur eftir helgi samkvæmt stundatöflu okkar þingmanna eins og hún hefur verið lögð upp.

Mér finnst mikilvægt að við fáum líka að vita, ef hæstv. ráðherrar koma ekki, hversu lengi hæstv. forseti ætli að halda okkur hinum hér, sem ekki óskuðum eftir þessum kvöldfundi. Ég minni á það aftur og aftur að það voru hæstv. ráðherrar sem óskuðu eftir þessum kvöldfundi, vonandi til að eiga við okkur samtal um þá tillögu sem liggur fyrir, en þeir eru ekki hér. Eigum við þá ekki að fresta fundi þangað til þeir komast til fundar við okkur hin?