143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frómar óskir og góð nærvera er ágæt út af fyrir sig en eins og hér hefur verið komið inn á er tilgangurinn með viðveru ráðherra hér við umræðu að svara málefnalegum spurningum sem til þeirra er beint. Geri þeir það ekki geta þeir allt eins farið með ráðherrastólinn heim til sín og setið þar og svarað ekki.

Málefnalegum spurningum hefur verið beint til hæstv. utanríkisráðherra. Formaður Sjálfstæðisflokksins gaf við umræðuna í kvöld út yfirlýsingu um aðkomu þjóðarinnar og spurt er hvort sú nýja stefna, sem formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti í málinu, sé stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu eða stefna beggja stjórnarflokkanna. Styður hæstv. utanríkisráðherra það að mál þetta fari í dóm þjóðarinnar, að þjóðin fái aðkomu að ákvörðuninni í Evrópumálunum, hvort sem það er með hætti hæstv. fjármálaráðherra að fá að greiða atkvæði um þessa tillögu eða raunverulega lýðræðislega þjóðaratkvæðagreiðslu um valkostina að halda áfram eða hætta?

Er það afstaða Framsóknarflokksins að með þessum hætti eigi utanríkismálanefnd að taka málið til umfjöllunar? Hefur hann með sama hætti og formaður Sjálfstæðisflokksins fallið frá þeirri tillögu sem hér liggur á borðinu um að þingið eigi einhliða að taka þessa ákvörðun og vill hann nú að endanleg ákvörðun í málinu, með hvaða hætti sem hún yrði borin undir þjóðina, verði borin undir þjóðina eða er þetta bara afstaða samstarfsflokksins, formanns Sjálfstæðisflokksins?