144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

upplýsingar um afnám gjaldeyrishafta.

[15:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á ágætum fundi sem stjórnarandstöðuflokkarnir stóðu að í síðustu viku, um afnám gjaldeyrishafta, voru þrír frummælendur sem fóru yfir þau mál, bæði losun haftanna sem slíkra en ekki minnst hvað tæki við ef höftin yrðu losuð, hvers konar framtíð við sæjum fyrir okkur, hvort áframhald yrði á einhvers konar höftum eða reglum. Rætt var um varúðarreglu Seðlabankans í því samhengi eða hvort farnar yrðu aðrar leiðir, hversu miklar slíkar reglur þyrftu að vera til að geta tryggt stöðugleika og lífskjör almennings.

Það var margt áhugavert sem kom fram en eitt af því áhugaverðasta var sá samhljómur sem manni fannst bæði hjá þeim sem spurðu og þeim sem töluðu. Fundurinn var vel sóttur af alls konar fólki sem hafði fyrst og fremst áhuga á umræðunni, að heyra hvað væri í gangi, hvað menn sæju fyrir sér. Það voru þau sjónarmið að það væri mjög mikilvægt að áætlanir um afnám hafta ættu ekki að vera leynilegar, þær þyrftu einmitt að vera opnar til þess að hægt væri að efna til opinnar umræðu um þær þannig að hægt væri að skapa sátt um þær í samfélaginu. Það er alveg ljóst að viðfangsefnið er risastórt, virðulegi forseti. Ef það á að takast vel þurfum við að vera sammála um hvert við erum að fara, líka um það sem tekur við ef tekst að losa um höft.

Mig langaði að beina spurningu til hæstv. forsætisráðherra, í ljósi þess að hann lét þau orð falla, að mig minnir fyrir rúmu ári, að ekki væri rétt að gera slíka áætlun opinbera, það þjónaði ekki tilgangi hennar heldur ætti hún einmitt að vera leynileg: Hefur hæstv. forsætisráðherra skipt um skoðun? Er hann enn þeirrar skoðunar að áætlanir um afnám hafta eigi að vera leynilegar og betra sé að almenningur frétti af þeim í gegnum leka á upplýsingum (Forseti hringir.) í fjölmiðla eða hefur hann skipt um skoðun og telur mikilvægt að þetta sé gert með opinberum hætti þannig að okkur lánist að skapa sátt um málið?