144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

skuldaþak sveitarfélaga.

508. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra varðandi reglur um skuldaþak sveitarfélaga og þá sérstaklega hvort hún telji koma til álita að breyta þeim reglum sem ráðherra hefur vald til að breyta með reglugerð á þann veg að fjárfestingar sveitarfélaga vegna kaupa á félagslegum íbúðum teljist ekki með skuldbindingum upp í það þak sem sett er við skuldsetningar að heimildum sveitarfélaga.

Ástæðan fyrir því að ég ber fram þessa fyrirspurn er sú staðreynd að þó að húsnæðismál séu meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga er staðan samt þannig að kaup sveitarfélaganna á félagslegum íbúðum telja upp í heildarskuldsetningu viðkomandi sveitarfélaga. Í sumum sveitarfélaganna í kringum okkar — það hefur sérstaklega komið fram á fundum okkar þingmanna kjördæmisins með bæjaryfirvöldum jafnt í Hafnarfirði og Kópavogi — er þetta alvarlegt vandamál því að sveitarfélögin geta ekki bætt við sig félagslegum íbúðum þó að þau telji efnisleg rök fyrir því vegna þess að frekari kaup telja upp í skuldaþakið. Íbúðir sem sveitarfélögin hafa hug á að kaupa eru hins vegar íbúðir á frjálsum markaði og frekar örugg eign þar af leiðandi og auðseljanleg.

Ég vil þess vegna spyrja hvort ekki séu efnisrök við þær aðstæður sem nú eru á íbúðamarkaði að rýmka þetta svigrúm svo að sveitarfélögin eigi auðveldara með að mæta þeim miklu biðlistum sem eru eftir félagslegu húsnæði.

Það er auðvitað ákveðið svigrúm hér, þó að sett hafi verið ný lög um fjármál sveitarfélaga og settar hömlur á skuldsetningarmöguleika sveitarfélaga, og til dæmis var farin sú leið árið 2009 og 2010 í kjölfar þess að ég sem félagsmálaráðherra lagði fram frumvarp sem heimilaði Íbúðalánasjóði að lána sveitarfélögum 100% byggingarkostnaðar á hjúkrunarheimilum sem ríkið endurgreiddi síðan sveitarfélögunum á 40 árum, þá var gerð sú breyting að heimila að þær skuldbindingar teldu ekki upp í skuldaþak þeirra sveitarfélaga sem þar eiga hlut að máli. Í því tilviki er þó um að ræða þjónustu við aldraða sem er ekki meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga og auðvitað eignir sem eru kannski tregseljanlegri, heil hjúkrunarheimili, en einstakar félagslegar íbúðir.

Ég vil því spyrja í ljósi þess hvert eðli fjárfestingarinnar er — íbúðir á höfuðborgarsvæðinu eru almennt séð auðseljanlegar, og mikil og brýn þörf er vegna biðlistanna, ríkur vilji er til þess, t.d. í þeim tveimur bæjarfélögum sem ég hef nefnt, Kópavogi og Hafnarfirði, að gera betur í þessu efni — er þá ekki einboðið að lyfta þessu þaki til að gera frekari fjárfestingar mögulegar að þessu leyti?