146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hlustaði af athygli á ræður hér í gærkvöldi í eldhúsdagsumræðum. Mér fannst ekki mikill sannfæringarkraftur vera í ræðum stjórnarliða um að þeir brynnu fyrir því að leiða þjóðina áfram í velferðarsamfélagi og hefðu einhverja framtíðarsýn heldur virtist þetta vera það ástlausasta hjónaband sem ég hef séð og hangir saman af hagkvæmnisástæðum einum saman. Það snýst um völd og aftur völd. Í málflutningi manna fannst mér koma fram að þeir bæru sig illa yfir því að það væri svo erfitt að stjórna við þær aðstæður sem nú væru. Ég er búin að vera á þingi í átta ár. Ef menn vilja tala um erfið ár þá voru það auðvitað árin eftir hrun þegar dagarnir runnu saman í eitt, nótt og dagur, hérna á þingi.

Ég get ekki vorkennt fólki að standa frammi fyrir því núna á þessum tíma, þegar þjóðin hefur borið okkur hingað með því að taka á sig miklar þrengingar eftir hrunið, að menn gera kröfu til þess að kökunni sé skipt með réttlátum hætti. Við erum að uppskera árangur erfiðis til margra ára og þá væla menn yfir því að þetta sé allt svo erfitt, það sé svo erfitt að leggja meira fé í heilbrigðiskerfið, það sé svo erfitt að leggja meira fé í menntakerfið, það sé svo erfitt að byggja upp innviði, það sé svo erfitt að fá allan þennan fjölda ferðamanna til landsins. Allt er svo erfitt. Ef þetta er allt svona erfitt verða þá menn ekki bara að horfast í augu við það að þeir ráða ekki við þetta hlutverk að stjórna landinu þegar góðæri er? Við vinstri menn getum alveg tekið það að okkur. Það er ekki trúarofstæki að vera á móti einkavæðingu (Forseti hringir.) og vinna leynt og ljóst að því að færa sameiginlegan auð þjóðarinnar í hendur einkaaðila eins og þessi ríkisstjórn er að gera.