146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 kemur fram að íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum til þróunarsamvinnu. Framlög Íslands til þróunarsamvinnu voru hins vegar ekki nema 0,25% árið 2016 og verði fjármálaáætlun samþykkt óbreytt munu framlög einungis hækka um 0,01% árið 2018, eða 0,26% af þjóðartekjum, og haldast þannig til ársins 2022. Framlög til Íslands til NATO hafa hins vegar verið aukin á undanförnum árum, fyrst í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og gerir ríkisfjármálaáætlun ráð fyrir að svo verði áfram. Hæstv. forsætisráðherra hefur í útlöndum lofað auknum peningum til NATO.

Það steðja vissulega ýmsar hættur að í heiminum sem leitt geta til þess að öryggi ríkja sé ógnað. En í stað þess að ráðast að rótum vandans, sem er misskipting og arðrán, hafa ríku samfélögin brugðist við með sívaxandi vígvæðingu og gegndarlausri sóun í hergögn og rekstur herja og hernaðarbandalaga.

Stefna fjármálaáætlunar um aukin framlög til NATO en metnaðarleysi í þróunarsamvinnu er skammsýn og grefur undan öryggi landsmanna og öryggi í heiminum almennt. Það er stefna sem ber að hafna. Við skulum hafa það í huga þegar við ræðum hér áfram ríkisfjármálaáætlun og greiðum um hana atkvæði síðar á þessu þingi.