146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[10:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Hér er klárlega um að ræða nýtt verklag í fjármálaáætluninni. Það er stórt og mikið átak sem íslensk stjórnsýsla gerir í þessu máli. Ég ætla rétt að nefna nokkra punkta sem við tökum til í áliti meiri hlutans í fjárlaganefnd, um fjárfestingastigið og betri upplýsingasöfnun þar, þannig að við metum það og reynum að sjá fjárfestingastigið í landinu fyrir okkur á næstu árum, hvernig við vinnum þetta mál. Við kölluðum Samtök iðnaðarins og fleiri aðila fyrir nefndina, óskuðum eftir upplýsingum vítt og breitt og vonandi fáum við ítarlegri greiningar fyrir næstu fjármálaáætlun, jafnvel fyrir fjárlögin í haust frá þessum aðilum.

Mikilvægt er að vinna þetta náið með sveitarfélögunum og öðrum opinberum aðilum, fyrirtækjum og ohf-unum og öðrum til að fá betri heildarmynd en við virðumst vera með í dag og höfum haft til að vinna með.

Varðandi það sem fram kemur í áliti meiri hluta fjárlaganefndar um ferðaþjónustu þá teljum við mjög mikilvægt að ítarlegri rannsóknir og greiningar fari fram á greininni, sem skapaði um 39% af gjaldeyristekjum í fyrra þegar sjávarútvegurinn skapaði nærri 20% og stóriðjan 13%. Það er spurning hvort taka eigi íslenskan flugrekstur út úr tölfræðinni varðandi ferðaþjónustuna og gera jafnframt ítarlegar greiningar á flugrekstrinum. Íslenskur flugrekstur er hlutfallslega gríðarlega stór hluti af efnahagslífi okkar, hann kemur víða við. Þetta er raunverulega fjórða stoðin í dag ef við tölum um hinar hefðbundnu stoðir, og það þarf að greina. Verið er að ræða um hvernig við eigum að tempra hinn mikla straum erlendra ferðamanna til landsins og þær efnahagslegu stærðir sem skapast, og eins þrýstinginn á íslensku krónuna og slíka þætti, hvort ekki þurfi að fara í frekari rannsóknir á því, vegna þess að íslenskur flugrekstur, alþjóðaflugrekstur, er orðinn svo stór breyta í landsframleiðslu og efnahag þjóðarinnar. Það er því þörf á að menn skoði það efnahagslega og geri þær greiningar sem gera þarf, hvaða áhrif hann hefur á hagkerfi okkar.

Árið 2010, þegar Eyjafjallajökulsgosið varð, voru 16 farþegaþotur í rekstri hjá Icelandair og Iceland Express til og frá landinu. Á þessu ári eru þær orðnar 49 hjá Wow og Icelandair, fjöldinn hefur þrefaldast. Ef spárnar ganga eftir, og það gerist sem Wow air hefur gefið í skyn, innan þriggja ára, að flugfélagið fari úr 17 vélum, sem það hefur yfir að ráða í dag, upp í 40, og Icelandair heldur áfram að vaxa eins og það hefur gert síðustu ár, verða farþegaþotur sem fljúga til og frá landinu 2020 orðnar 80. Þær voru 16 talsins árið 2010. Á 10 árum fimmfaldast því flugflotinn til og frá landinu.

Ég held að við þurfum að fara að taka alvöruumræðu um hversu mikil áhrif þessi gríðarlegi vöxtur getur haft á íslenskt efnahagslíf. Það má heldur ekki tala þannig — ég er nú sá þingmaður hér sem mest hefur talað fyrir íslenskum flugrekstri og hef gert það mjög lengi, en ég vil að við greinum hvað þetta mun þýða fyrir íslenskt efnahagskerfi. Ég held að það sé mikil þörf á að gera það sem allra fyrst.

Offshore Economics gerði skýrslu árið 2011 um íslenskan flugrekstur sem hlutfall af landsframleiðslu Íslendinga. Þá var það um 6,6%, en í dag eru menn ekki með á hreinu hvað það er hátt hlutfall. Heyrst hafa tölur um að það séu á milli 10 og 15% af landsframleiðslunni sem tengist íslenskum alþjóðaflugrekstri. Ég tel mikla mikla þörf á að þetta verði tekið mjög kerfisbundið fyrir og að skýrslan verði a.m.k. unnin á nýjan leik. Það þarf að uppfæra þau gögn og þær tölur sem voru í fyrri skýrslu til að fá einhverja sýn á þetta vegna þess að stefnumótun fyrir landið á náttúrlega að gera að einhverju leyti hér. Ríkisvaldið, löggjafarþingið verður náttúrlega að hafa einhverja sýn á hvernig þetta eigi að þróast í efnahagslífinu og segja hvernig við viljum sjá að það þróist. Þess vegna erum við með ábendingar um þessa þætti í meirihlutaáliti fjárlaganefndar. Við viljum að menn fari að meta áhrifin inn í kerfið og fái heildarsýn og vinni að stefnumótun til framtíðar.

Ef við skoðum hvaða hugmyndir eru í dag um Keflavíkurflugvöll og þróun hans á næstu árum þá eru það mjög stórar hugmyndir. Það þyrfti líka að meta það inni í heildarefnahagskerfi þjóðarinnar hvað það þýðir (Forseti hringir.) ef spárnar rætast sem menn hafa talað um í sambandi við Keflavíkurflugvöll.