146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leiðrétta smámisskilning um þetta lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Eins og fram kemur í umsögn hv. þm. Smára McCarthys í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, er það einungis í fjórða sæti af sex af lengstu hagvaxtarskeiðum sögunnar ef spár haldast. Það þarf að vera umtalsvert lengra til að hljóta titilinn „lengsta hagvaxtarskeiðið“. En alla vega.

Það sem vantar helst í þá fjármálaáætlun sem við ræðum núna er sem sagt gagnsæi. Borist hafa hátt í 70 athugasemdir umsagnaraðila, langflestar frá fjármálaráði, um að gagnsæi í fjármálaáætluninni sé ekki bara ábótavant, það sé ekkert. Gagnsæi er algjörlega nauðsynlegt til þess að við getum tekið upplýstar ákvarðanir. Það á ekki bara við um þingið, heldur líka um þjóðina. Fólk úti í samfélaginu les og skoðar hver áform stjórnvalda eru á næstu árum. Þau áform þurfa að vera skiljanleg, sett fram á skiljanlegan og auðgreinanlegan hátt þannig að fólk geti gagnrýnt stefnu stjórnvalda á málefnalegan hátt.

Ég er að leita að ákveðnum atriðum í ræðu hæstv. fjármálaráðherra um fjármálaáætlunina, en fjármálaáætlunin er ályktun ríkisstjórnar um umgjörð fjárlaga. Það sem ríkisstjórnin skilaði inn til Alþingis og Alþingi samþykkti héðan út til ríkisstjórnar þýðir að ríkisstjórninni er ekki heimilt að fara fram yfir þá útgjaldaramma sem settir eru í fjárlagaáætlun í frumvarpi til fjárlaga. Það er algjört lykilatriði. Fjármálaáætlun er ekki bara áætlun sem hægt er að hvika til eða frá án frávika án útskýringa. Þetta er alvöruplagg sem hefur mjög mikla þýðingu gagnvart fjárlögunum í haust.

Stefnumörkun málefnasviða er eitt af meginatriðunum sem eiga að vera í fjármálaáætlun. Stefnumörkun málefnasviða er ætlað að útskýra helstu áherslur, markmið og kostnað, sem er einmitt mjög ábótavant í þessari fjármálaáætlun og er helsta ástæða þess að við getum í rauninni ekki samþykkt hana. Við skiljum ekki hvert á að fara eða hvað á að gera. Þar gæti framsetningin verið mikið skýrari, kostnaður betur metinn og mælikvarðar líklegri til þess að mæla framvindu þeirra verkefna sem þar eru sett fram.

Heildartölur málefnasviðanna ættu að vera sundurgreinanlegri niður í rekstrarkostnað, lögbundin verkefni, launakostnað og einskiptisframkvæmdir, svo helstu liðir séu nefndir. Þetta eru þekktar stærðir. Það á ekki að vera neitt vandamál að setja fram núverandi mynd og spá fyrir um næstu ár. Þetta eru mjög þekktar stærðir og eru algjörlega nauðsynlegar fyrir Alþingi til þess að taka ákvarðanir um hvort við stöndum í stað, hvort verið sé að draga úr niðurskurði eða hvort bætt sé í einhvers staðar. Það leiðbeinir okkur um hvaða spurninga við eigum að spyrja á hverju málefnasviði fyrir sig.

Markmið fjármálaáætlunar er einmitt að útbúa ramma fyrir næstu fimm ár og alveg sérstaklega næstu fjárlög. Þegar næsta frumvarp til fjárlaga er gefið út eiga engar meiri háttar breytingar, að öllum forsendum óbreyttum, að koma á óvart í tekjum eða útgjöldum einstakra málaflokka. Málið snýst um að hér kemur ríkisstjórnin til þingsins með verkefnalista sem skiptist í rauninni upp í ákveðin verkefni sem Alþingi er þegar búið að skuldbinda sig til að fara í. Listinn skiptist í þá föstu liði sem ég taldi upp og svo ný verkefni. Á móti leggur ríkisstjórnin fram tillögur um fjármögnun til þessara verkefna, til þessara föstu liða, til skuldbundinna verkefna.

Við þurfum að spyrja okkur um fjármagnið, að þau verkefni sem leggja á fjármagn til séu skýrð frekar. Ríkisstjórnin kemur til Alþingis og segir: Við ætlum að gera hitt og við ætlum að gera þetta og það á að kosta svona mikið. Við spyrjum þá: Af hverju? Þegar við rýnum í fjármálaáætlun, skoðum verkefnalistann, sem þó er settur fram á mjög undarlegan hátt að því er mér finnst, þá passa tölurnar ekki. Tölurnar sem eru settar fram. Þetta mun kosta þetta mikið og þetta ætlum við að gera. Það passar ekki saman. Þá verðum við að spyrja um af hverju við höfum ekki fengið nein svör við því. Og vegna þess að við fáum ekki nein svör við því ýtum við á „nei“ og hendum þessu aftur í hausinn á ríkisstjórninni.